6.1.2010

Miðvikudagur, 06. 01. 10.

Í dag hef ég varið miklum tíma til að skoða erlend blöð og vefsíður til að reyna að átta mig á því, hvernig fjallað er um synjun Ólafs Ragnars á Icesave-lögunum. Ég skrifaði pistil á vefsíðuna amx.is um greinar tveggja breskra álitsgjafa. Helst virðist, að þeir, sem eru viðmælendur ráðherra ríkisstjórnar Íslands séu með hótanir í garð Íslendinga.  Aðrir hafa meiri skilning á því en ráðherrar, að ekki sé sjálfgefið, að Íslendingar sætti sig við Icesave-afarkostina.

Nú fyrst, þegar í þetta óefni er komið, berast fréttir af því, að Steingrímur J. ætli að leggja land undir fót til að ræða við starfsbræður í Bretlandi og Hollandi um Icesave.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, segir frá því á vefsíðu sinni í dag, að hann hafi rætt við Össur Skarphéðinsson í síma. Bildt segir:

„Annars har det varit den isländska situationen som krävt fortsatt uppmärksamhet under dagen.

Utrikesminister Össur Skarptheöinsson och jag hade ett längre samtal i dag på eftermiddagen.

Presidentens ingripande har utan tvekan skapat en för landet mycket besvärlig situation – som dessvärre dessutom kan bli ändå mycket mera besvärlig om inte det hela reds upp.

Annars fanns det faktiskt en hel del tecken på att den isländska ekonomiska situationen höll på att förbättras. Men nu är allt utomordentligt osäkert igen.“

Af færslunni má skilja, að Össur hafi ekki dregið upp fagra mynd af gjörðum Ólafs Ragnars fyrir Bildt.  Ólafur Ragnar hafi spillt fyrir ríkisstjórninni við endurreisnarstarfið, sem hafi verið farið að skila árangri en nú sé allt í mikilli óvissu að nýju.

Hér hefur verið lagt til, að utanríkisráðuneytið hafi eftirlitsmann á staðnum, þegar Ólafur Ragnar ræðir við erlenda fjölmiðla. Nú virðist ekki veita af, að forsetaskrifstofan hafi mann á staðnum, þegar Össur lýsir Ólafi Ragnari í símtölum sínum yfir hafið.