30.12.2009

MIðvikudagur, 30. 12. 09.

Í dag ræddi ég við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í þætti mínum á ÍNN, Verður hann sýndur klukkan 21.30 í kvöld og síðan endursýndur á tveggja tíma fresti næsta sólarhring. Í þættinum kemur meðal annars fram, að fyrir jólin 2008 óttuðust menn, að peningaseðlaþurrð yrði í landinu og voru vangaveltur um, að lögregla tæki til við að hvetja fólk til að setja peninga aftur í banka.

Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með Icesave-vandræðaganginum á alþingi í dag. Yfirbragðið á framgöngu stjórnarliða ber allt með sér, að þeir séu að leyna þjóðina einhverju í þessu stórmáli. Hitt blasir síðan við betur en áður, að Icesave-nefndin undir formennsku Svavars Gestssonar hefur alls ekki verið starfi sínu vaxin.

Fréttir eru óljósar um, hvort Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, bað Svavar Gestsson, sendiherra, að skýra mál sitt á fundi fjárlaganefndar. Hitt er víst, að stjórnarandstaðan vildi fá sendiherrann á fundi, en hann skaut sér undan því með loðnu bréfi. Össur Skarphéðinsson segist hafa fyrirgefið Svavari, að hann bað breska lögmannsstofu að segja Össuri ekki alla söguna, þegar hún kynnti honum Icesave-málið í lok mars 2009.

Ég velti fyrir mér heljarstökkum Svavars á þingi í deilunum um aðildina að EES á sínum tíma, ef einhver sendiherra hefði hagað sér á sama veg og framgöngu Svavars hefur verið lýst síðasta sólarhring.