14.12.2009

Mánudagur, 14. 12. 09.

Í dag birtist eftir mig umsögn um bókina Aung San Suu Kyi eftir Jakob F. Ásgeirsson á Miðjunni og má lesa hana hér.

„Það bar tilætlaðan árangur,“ sagði Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, á Alþingi 14. desember, þegar hún lýsti þátttöku sinni í „friðsamlegum mótmælum“, þar sem hún öskraði hvatningarorð til þeirra, sem réðust á lögreglustöðina í Reykjavík, og stóð síðan með síma í glugga þinghússins og leiðbeindi þeim, sem réðust gegn lögreglunni. „Árangurinn“ er sá, að Álfheiður situr illu heilli í ríkisstjórn Íslands. Spyrja má: Hvenær verður botninum náð?

Lára Ómarsdóttir sagði upp störfum á fréttastofu Stöðvar 2 25. apríl 2008  vegna ummæla sem hún heyrðist viðhafa þar sem hún var að fylgjast með mótmælum bílstjóra við Norðlingaholt og ræddi um að fá einhvern til þess að henda eggi að lögreglunni í beinni útsendingu. „Ég get nú kannski fengið einhvern til að kasta eggi rétt á meðan við erum live á eftir,“ heyrðist Lára segja.

Álfheiður Ingadóttir stendur í alþingi og segist ekki þurfa að biðjast afsökunar á neinu, af því að öskur hennar og símtöl báru „tilætlaðan árangur“. Þetta er jólakveðja heilbrigðisráðherra til lögreglumannanna níu, sem sækja bætur á hendur ríkissjóði vegna meiðsla. Enn er ástæða til að spyrja: Hvenær verður botninum náð?