13.12.2009

Sunnudagur, 13. 12. 09.

Fréttir frá Kaupmannahöfn hafa um helgina einkum beinst að þeim, sem mótmæla ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þar í borg um loftslagsmál. Lögregla handtók tæplega 1000 manns í gær og um 200 í dag. Lögregla er eins og við var að búast sökuð um harðræði. Áður en ráðstefnan hófst var vakið máls á því í dönskum blöðum, að álagið á lögreglumenn yrði mikið, enda yrðu þeir að standa 16 tíma vaktir. Svíar buðust til að senda 600 manna lögreglulið yfir Eyrarsund en Danir afþökkuðu boðið.

Hér er viðtal, sem sýnir, hve langt bil er á milli þeirra, sem halda fram staðreyndum um hitafar á jörðunni, og hinna, sem kynna sér ekki málið til hlítar.

Furðulegt er, hvernig staðlausar „fréttir“ fara um fjölmiðla eins og staðreyndir. Æ betur verður ljóst, að þetta hefur gerst í loftslagsumræðunum. Nýlegt dæmi úr fjölmiðlaumræðum undanfarinna ára hér á landi eru staðhæfingar um, að kostnaður ríkissjóðs vegna Baugsmálsins skipti hundruð milljóna eða jafnvel allt að milljarði króna. Hinn 8. október 2009 birtist þessi frétt hins vegar á mbl.is:

„Samanlagður kostnaður við sérstakan saksóknara í Baugsmálinu svonnefnda nam samtals 108 milljónum króna á þremur árum. Þetta kemur fram í fjáraukalagafrumvarpi fyrir yfirstandandi ár, sem lagt var fram á Alþingi í dag.

Farið er fram á 30,2 milljóna króna aukafjárveitingu vegna lokauppgjörs kostnaðar við sérstakan saksóknara í Baugsmálinu sem lauk í fyrra.  Um er að ræða launagjöld vegna sérstaks saksóknara og löglærðs aðstoðarmanns hans, auk aðkeyptrar lögfræðiþjónustu.“

Hefur einhver gengið á eftir því við þá, sem héldu fram  hundruð milljóna eða milljarða kostnaðinum, hvað þeir höfðu fyrir sér? Hafi það verið gert, hefur það farið fram hjá mér.