27.11.2009

Föstudagur, 27. 11. 09.

Jóhannes í Bónus ræðst á Morgunblaðið í blaði sínu Fréttablaðinu í dag og hinn óhlutdrægi starfsmaður RÚV , Egill Helgason, segir á vefsíðu sinni:

„Jóhannes í Bónus segir að Hagar auglýsi ekki í Mogganum. Nei, þeir auglýsa í Fréttablaðinu.

Svona skiptast menn í lið á Íslandi, eftir viðskiptaklíkum.

Fyrirtæki Jóns Helga Guðmundssonar auglýsa grimmt í Morgunblaðinu þessa dagana, þar úir og grúir af auglýsingum frá Krónunni, Nóatúni, Intersport og Byko.“

Ástæða er til að spyrja Egil: Auglýsa fyrirtæki Jóns Helga ekki í miðlum Bónus/Arion-fyrirtækjanna? Hefur Egill rannsakað málið? Jón Helgi hefur ekki gefið opinbera yfirlýsingu um, að hann skipti ekki við Bónus/Arion-miðla af pólitískum ástæðum. Einnig er spurt: Telur Páll Magnússon, útvarpsstjóri, þessa rannsóknarblaðamennsku RÚV-starfsmanns samræmast hæfisreglum RÚV?

Jóhannes í Bónus veifar fleiru en auglýsingavopninu. Hann segir lausasölu á Morgunblaðinu hafa minnkað um 40%. Hvernig veit hann það? Vegna sölu í Bónus, 10/11 eða Hagkaupum, verslunum Haga/Arion? Spyrja má: Var hilluplássi Morgunblaðsins breytt? Var blaðið fært í neðstu hillu utan sjónhæðar? Eða var pantað 40% minna af blaðinu? Birgjar Bauga, Haga og Bónuss þekkja aðferðirnar.

Grein Jóhannesar í Bónus ritar hann ekki í eigin blað í þeim eina tilgangi að svara eða ögra Morgunblaðinu. Hún er skrifuð til þess að minna Jóhönnu og Steingrím J. á, að Jóhannes ráði ekki aðeins yfir Fréttablaðinu heldur hafi hann einnig líf Morgunblaðsins í hendi sér. Hún er innlegg í baráttu Bónusfeðganna fyrir yfirráðum yfir Högum. Þeir telja, að Jóhanna og Steingrímur J. eigi þar síðasta orðið.

Páll Magnússon og samstarfsmenn hans við stjórn RÚV sjá sér hag af því, að Egill Helgason dragi á þennan hátt taum Jóhannesar og Fréttablaðsins í þágu ríkisstjórnarinnar. Hver heyrir lengur kröfur frá stjórnendum 365-miðla um, að RÚV  hverfi af auglýsingamarkaði?