7.11.2009

Laugardagur, 07. 11. 09.

Loksins komst ég austur í Fljótshlíð til að sinna ýmsum haustverkum í ótrúlega mildu og fallegu veðri. Í rokinu fyrir fáeinum vikum hafa lítil mannvirki dóttursona minna fokið út í veður og vind. Hér getur orðið mjög hvasst og tvisvar á þeim fáu árum, sem ég hef lagt leið mína reglulega hingað, hafa útihús á jörðinni orðið fyrir foktjóni. Nú hefur hins vegar verið búið svo um hnúta, að þau ættu að standast áraunina.

Um þessar mundir er þess minnst um heim allan, að hinn 9. nóvember 1989 hrundi Berlínarmúrinn. Verður það meðal annars gert í Norræna húsinu mánudaginn 9. nóvember klukkan 12 á hádegi á fundi, sem Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál (SVS) og Varberg halda. Þar flytur Ágúst Þór Árnason, kennari við Háskólann á Akureyri, erindi. Hann var í Berlín við hrun múrsins.

BBC World Service hefur flutt marga þætti undanfarið um aðdraganda að hruni múrsins. Í einum þeirra var alþjóðaráðgjafi Helmuts Kohls, þáverandi kanslara V-Þýskalands, spurður, hvort þeir hefðu ekki vitað, hvað var í vændum. Hann sagði svo ekki vera, enda hefðu þeir verið í Varsjá, þegar fréttirnar bárust. Þá sagði þátttakandi í þættinum, að þetta væri ekki undarlegt, því að austur-þýska ríkisstjórnin hefði ekki heldur vitað, hvað var í vændum að kvöldi 9. nóvember.