5.11.2009

Fimmtudagur, 05. 11. 09.

Stöð 2 sagði í kvöld frá skoðanakönnun, sem unnin var á vegum háskólans á Bifröst og sýndi, að aðeins 29% aðspurðra voru frekar eða mjög hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu en 54% frekar eða mjög á móti. Um helmingur var hlynntur aðildarviðræðum en 43% á móti þeim.

Niðurstaðan kemur mér ekki á óvart. Ríkisstjórnin hefur sýnt í sumar og haust, að henni er ekki unnt að treysta fyrir málstað Íslands gagnvart erlendum ríkjum. Þá hefur Evrópusambandið orðið holdgervingur þess ofríkis, sem við megum sæta vegna Icesave.

Lítilsvirðingin, sem birtist í því að forsætisráðherrar Breta og Hollendinga svara ekki bréfi Jóhönnu Sigurðardóttur vegna Icesave, er dæmafá. Fráleitt er að ætla, að nú sé best fyrir Íslendinga að sækja rétt sinn á hendur Brussel-valdinu.

Samfylkingin hefur haldið þannig á ESB-málinu, að til skammar er fyrir hana. Laumsuspilið, óðagotið og þröngsýni við skipan viðræðunefndar, allt ber þetta að sama brunni og á sinn þátt í þeirri niðurstöðu, sem kynnt var í kvöld á Stöð 2.

Ég undrast, að stjórnarandstaðan skuli ekki krefja utanríkisráðherra svara um einstaka þætti málsmeðferðarinnar. Vonandi er þögn hennar ekki til marks um samþykki. Því lengur, sem stjórnarandstaðan lætur hjá líða að segja sig frá ESB-vinnubrögðum stjórnvalda, þeim mun meiri blett fær hún á sig vegna þeirra.