1.11.2009

Sunnudagur, 01. 11. 09.

Ég fékk bréf frá vinstri-grænum bloggara í dag, sem sagði mér að hætta að skrifa hér á síðuna. Ég væri á eftirlaunum og ætti að ekki að láta í mér heyra opinberlega. Ég svaraði, að ég mundi ekki fara að þessum ráðum. Tilmælin um, að ég haldi mér saman vegna aldurs og fyrri starfa, sýna, að hinn vinstri græni bloggari vill, að skoðanir mínar á mönnum og málefnum hætti að birtast. Í Sovétríkjunum voru menn settir á geðveikrahæli til að þagga niður í þeim. Steingrímur J. Sigfússon boðaði netlögreglu á sínum tíma. Ætli henni verði ekki beitt gegn mér?

Í fyrradag sagði ég hér á síðunni, að skilanefndir og stjórnendur banka gengju harðar fram gegn þeim, sem skulda lítið, en hinum stórskuldugu. Tap bankanna vegna fjármálagjörninga með aðild Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, beinni eða óbeinni, skiptir hundruð milljörðum. Nú berast fréttir um að ný-einkavætt Kaupþing ætli að ganga til samstarfs við Jón Ásgeir um rekstur Haga.

Enginn veit hver á hið ný-einkavædda Kaupþing. Leynd og ógagnsæi einkenna störf og ráðstafanir bankans. Steingrímur J. Sigfússon leggur blessun sína yfir þessa leynd og sömu sögu er að segja um Gylfa Magnússon, efnahags- og viðksiptaráðherra. Jóhanna Sigurðardóttir, sem í stjórnarandstöðu kallaði hæst á upplýsingar frá ráðherrum og taldi aldrei nógu langt gengið í kröfu um, að ráðherrar öxluðu ábyrgð, þegir þunnu hljóði um þetta. Hennar áhyggjur ná ekki lengra en til „skúffufjár“ eigin ráðherra og dómgreindarbrests þeirra við að ráðastafa því.

Hinn vinstri-græni bloggari, sem vill, að ég þegi, telur sig örugglega framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar best með því að heimta, að hætt sé miðlun upplýsinga. Steingrímur J. fór í Hóladómkirkju til að krefjast þess, að Kjartan Gunnarsson skrifaði ekki í blöð. Egill Helgason hefur sagt Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að halda sér saman. Og læt ég þá hjá líða að minnast á uppnámið yfir því, að Davíð Oddsson ritstýrir Morgunblaðinu.