14.10.2009

Miðvikudagur, 14. 10. 09.

Ræddi í dag við Ársæl Valfells, lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands, í sjónvarpsþætti mínum á ÍNN. Við ræddum um gjaldmiðilsmál og stöðu okkar Íslendinga eftir bankahrunið.

Klukkan 18.00 var ég í Rótarýklúbbi Grafarvogs í Grafarvogskirkju og ræddi við félagana þar um þróun mála á norðurslóðum. Er greinilega mikill áhugi á þessum málum og framvindu þeirra.

Í dag var formlega tilkynnt, að Rússar myndu ekki veita Íslendingum lán vegna bankahrunsins, þeir ættu fullt í fangi með sjálfa sig. Ég er undrandi á því, hve lengi menn hafa látið eins og við því væri að búast, að Rússar myndu lána okkur fé, þótt rússneska ríkið berjist við mikinn fjárhagsvanda.

Steingrímur J. Sigfússon gaf til kynna í gær, að Icesave-málið kæmist á endapunkt næstu klukkstundir. Nú er meira en sólarhringur liðinn, frá því að þessi orð féllu. Þá er sagt í fréttum RÚV, að menn séu að kasta málinu á milli sín frá Íslandi til Hollands og Bretlands.

Athyglisvert er, að fréttastofa RÚV bregður aldrei neinni heildarmynd af hinum endalausu yfirlýsingum Steingríms J. og Jóhönnu um, að eitthvað sé á næsta leiti, sem síðan verður ekki. Þannig var látið í veðri vaka, þegar Steingrímur J. kom til Istanbúl á dögunum, að hann mundi semja um lán við Rússa. Nú lætur hann, eins og það hafi aldrei verið á dagskrá. Þetta er ótrúleg framganga og menn komast upp með hana vegna andvaraleysis fjölmiðla.

Í dag var tilkynnt, að rannsóknarnefnd alþingis á bankahruninu undir formennsku Páls Hreinssonar mundi skila skýrslu sinni 1. febrúar 2010 í stað 1. nóvember nk. Sagði Páll, að gögn hefðu borist seinna en vænst hefði verið, auk þess sem umfang skýrslunnar yrði meira en ætlað hafði verið.