12.10.2009

Mánudagur. 12. 10. 09.

Þegar farið er yfir umræður á þeirri viku, sem liðin er, frá því að ég hélt utan, sést, að reiptogið um Icesave er jafnhart og áður. Á hinn bóginn hefur skýrst, að Steingrími J. Sigfússyni varð ekkert ágengt á AGS-fundinum í Istanbúl. Spennan í aðdraganda fundarins og áður en Steingrímur J. hitti þar málsmetandi menn var hluti af spuna, sem rann út í sandinn.

Jóhanna Sigurðardóttir tók kipp undir stjórn spunameistara sinna, eftir að í ljós kom, að hún var í frjálsu fall á vinsældalistanum. Hún er að reyna að ná fótfestu með því að birta bréf. Annars vegar bréf sitt til Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs, og hins vega svar hans til Jóhönnu um, að það sé alveg öruggt, að framsóknarmönnum takist ekki að fá lán í Noregi utan afskipta AGS.

Þá birti Jóhanna bréf til sín um hörmungar þjóðarinnar, yrði ekki farið að stefnu Jóhönnu í Icesave-málinu. Virtist bréfið vera frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, sem kom til sögunnar 1. október, þegar Jóhanna afsalaði forsætisráðherra stjórn efnahagsmála og stjórnsýslu vegna Seðlabanka Íslands.

Í dag birtist síðan tilkynnig um uppgjör innan Landsbanka Íslands, sem er túlkað á þann veg, að 90% Icesave-skuldbindinganna verði greiddar með eignum bankans sjálfs og „aðeins“ 75 milljarðar króna lendi á íslenskum skattgreiðendum. Virðist málið komið á þennan reit að nýju, þrátt fyrir allt þrefið um hina fáheyrðu skuldabyrði í Icesave-samningunum. Skyldi Steingrímur J. að nýju kalla niðurstöðu málsins „glæsilega“ eins og hann orðaði það í sjónvarpsviðtali á mbl.is sl. vetur?

Spuninn vegna Steingríms J. í Istanbúl og Jóhönnu vegna Stoltenbergs hefur enn grafið undan trausti í garð þess, sem sagt er af opinberri hálfu um Icesave-lausnirnar.