5.10.2009

Mánudagur, 05. 10. 09.

Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar í kvöld. Menn þurfa að fara um það bil tvo áratugi aftur í tímann til að kynnast sambærilegu ráðleysi hjá ríkisstjórn við upphaf þings, framlagningu fjárlagafrumvarps og flutning stefnuræðu. Ræður ráðherranna voru ekki aðeins ótrúverðugar vegna þess, sem þeir sögðu, heldur einnig vegna hins, sem þeir sögðu ekki. Þeir treystu sér ekki til að lýsa hinni raunverulegu stöðu á stjórnarheimilinu.

Um átta mánuðir eru liðnir síðan Samfylking og vinstri-grænir tóku höndum saman um landstjórnina. Ögmundur Jónasson settist í ríkisstjórn 1. febrúar 2009 og boðaði 12 ára stjórnarsetu. Hann hefur nú yfirgefið ríkisstjórnina og þingflokkur vinstri-grænna getur ekki komið saman til fundar vegna innbyrðis ágreinings. 

Steingrímur J. heldur áfram að pukrast með Icesave-málið og að þessu sinni í Istanbúl. Hvorki hann né Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður hans, segja alla söguna. Í gær var gefið til kynna, að í dag myndu Rússar svara af eða á um lán til Íslands. Ekkert svar barst, enda eru Rússar ekki aflögufærir og eiga fullt í fangi með sjálfa sig.

Eitt er víst varðandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún bregst ekki þeirri skoðun, að vinstri stjórnir eru sundurlyndar og þar sé hver höndin upp á móti annarri. Sagan sýnir, að það tekur misjafnlega langan tíma fyrir þverbrestina að birtast. Þeir blasa nú við öllum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Örvænting magnast bakvið tjöldin innan Samfylkingarinnar en hún brýst fram í klofningi meðal vinstri-grænna.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í dag, varnaðarorð vegna ESB. Það er til marks um, hvernig komið er fyrir málstað ESB-aðildarsinna, að Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, flutti ræðu við stefnuræðumræðuna, án þess að hrópa á ESB-aðild eða ráðast á þá, sem eru á móti henni.