2.10.2009

Föstudagur, 02. 10. 09.

Spennandi var að fylgjast með fundi Alþjóðaólympíunefndarinnar í Kaupmannahöfn, þar sem gert var upp á milli fjögurra borga, sem sóttust eftir að halda Ólympíuleikanna 2016. Bandarísku forsetahjónin komu til Kaupmannahafnar til að mæla með heimaborg sinni, Chicago. Danska sjónvarpið var með stöðuga sendingu um þau hjón þá fimm tíma eða svo, sem forsetinn dvaldist í landinu. Chicago var hins vegar hafnað í fyrstu atrennu. Næst var Tókýó hafnað. Þá var gert upp á milli Rio de Janero og Madrid. Rio var valin og grét Lula, forseti Brasilíu, á blaðamannafundi brasilísku sendinefndarinnar í Bella Center.

Á CNN áttu menn í vandræðum með að skýra og skilja, hvernig nokkrum datt í hug að hafna Chicago, eftir að Obama-hjóninn höfðu mælt með borginni. Líklega var eins gott fyrir hjónin að leggja sitt af mörkum, því að annars hefði þeim verið legið á hálsi fyrir að láta ekki að sér kveða.

Karl Th. Birgisson, fyrrv. framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, var í Kastljósi í kvöld og lét þau orð falla, að ekki væru neinar hörmungar kallaðar yfir þjóðina, þótt lífskjörin færðust aftur til ársins 2002. Hvort menn hefðu ekki haft það dágott þá?

Kannski tekur sig einhver til og kynnir sér málflutning Samfylkingarinnar árið 2002 og í aðdraganda kosninganna 2003. Mig minnir, að frambjóðendur hennar hafi talið allt á hverfanda hveli og þó sérstaklega, hve fátækt væri mikil. Gott ef Ólafur Ragnar Grímsson hitti ekki Hörpu Njáls á Bessastöðum til að taka við skýrslu hennar um vaxandi fátækt Íslendinga og árétta með því helsta kosningamál Samfylkingarinnar.