1.10.2009

Fimmtudagur, 01.10. 09.

Var klukkan 08.00 í morgunþætti rásar 2 hjá Frey Eyjólfssyni og Láru Ómarsdóttur og ræddi um þróun mála á norðurslóðum og um stöðu stjórnmála. Hér má hlusta á samtalið.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, boðar miklar skattahækkanir og talar um „progressivt skattakerfi“ að skandinavískri fyrirmynd. Hann sagðist á sínum tíma hafa myndað norræna velferðarstjórn með Jóhönnu. Í Danmörku teygja skattar sig í 70% á hina hæstlaunuðu. Þar hafa stjórnvöld að vísu boðað skattalækkun. Hve langt ætlar Steingrímur J. í skattheimtu á einstaklinga? Hann segist ekki vita það. Sérfræðingar séu að reikna út, hve mikilla tekna þurfi að afla og hvernig. Fyrir nokkrum áratugum heyrði ég ráðherra í útgjaldaráðuneyti spyrja á ríkisstjórnarfundi: Hvers vegna ákveðum við ekki útgjöldin og högum síðan tekjuöfluninni í samræmi við þau? Því miður held ég, að þetta sjónarmið ráði of miklu við gerð fjárlagafrumvarpsins, sem Steingrímur J. er að kynna. Það er í anda vinstrimennskunnar.

Í Kastljósi kvöldsins sagði Steingrímur J., að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar við gerð fjárlaganna fælist í því, að krafist væri 5% samdráttar í heilbrigðis- og félagsmálum, 7% í menntamálum en 10% á öðrum sviðum. Þannig væri staðinn vörður um grunnþjónustu samfélagsins. Í þessu felst, að Steingrímur J. hefur breytt þeirri stefnu, sem mótuð hafði verið, að löggæslumálum yrði skipað með menntamálum ef ekki velferðarmálunum. Þetta endurspeglar hug vinstri-grænna í garð lögreglunnar, enda hafa þeir nú valið Álfheiði Ingadóttur sem heilbrigðisráðherra, en hún beitti sér gegn lögreglunni í mótmælunum í kringum áramótin, eins og margoft hefur verið lýst.

Einkenni stjónarsamstarfsins er, að ráðherrarnir tala í einskonar vorkunnartón um eigið hlutskipti og hótunartón í garð þingmanna. Þeim beri að láta að óskum ráðherranna annars gerist eitthvað voðalegt. Þetta er til marks um veika forystu ríkisstjórnarinnar bæði af hálfu Jóhönnu og Steingríms J. Það þykja til dæmis sérstök stórtíðindi, að Steingrímur J. hafi umboð frá þingflokki sínum til að ræða við Jóhönnu um Icesave-málið og spunnið er í kringum þetta umboð til að draga athygli frá hinu, að engin trygging er fyrir því, að þingmenn vinstri-grænna styðji niðurstöðu þeirra Jóhönnu og Steingríms J.