24.9.2009

Fimmtudagur, 24. 09. 09.

Ókum frá Kaupmannahöfn til Faaborg á Mið-Fjóni. Ég hafði aldrei áður séð hið mikla mannvirki, Stórabeltisbrúna, sem tengir Sjáland og Fjón.

Utanríkisráðuneytið hefur svarað ósk Bændasamtaka Íslands um að þýða spurningalistann frá ESB neitandi. Svarið kemur á óvart miðað við hátíðlegar yfirlýsingar á alþingi á liðnum vetri, þegar ályktun um íslenska málstefnu var samþykkt. Þar segir meðal annars í greinargerð, að markmið samþykktarinnar sé, að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Og síðan orðrétt:

„Þá er átt við vandaða íslensku sem nýtist sem tjáningarmiðill við hvers kyns kringumstæður. Framtíðarhorfur tungumáls ráðast fyrst og fremst af stöðu þess innan málsamfélagsins en ekki af stærð málsamfélagsins. Ef tungumál er notað á öllum sviðum er staða þess sterk. Á hinn bóginn er staða hvaða tungumáls sem er veik ef það er ekki notað eða jafnvel ekki talið nothæft nema á sumum sviðum samfélagsins og það látið víkja fyrir öðrum málum. Staða íslenskrar tungu verður best treyst með því að nota íslensku sem víðast í íslensku samfélagi og á sem fjölbreyttastan hátt þannig að engin svið verði út undan. Þar er mikilvægt að þjóðin sjálf taki einarða afstöðu með íslenskri tungu.“

Utanríkisráðuneytið ber við tíma- og fjárskorti. Þess vegna verði íslenskan að víkja. Hver setur tímamörkin? Ráðuneytið sjálft á kostnað íslenskunnar. Hver skammtar fjármunina? Að lokum alþingi. Reynist ályktun alþingis um íslenska málstefnu einskis virði, þegar til kastanna kemur? Ber utanríkisráðuneytinu ekki að sjá til þess að íslenskan verði ekki út undan gagnvart ESB-sviðinu? Er það best kynnt fyrir Íslendingum á ensku?