19.9.2009

Laugardagur, 19. 09. 09.

Smölun okkar Fljótshlíðinga gekk vel í dag í prýðilegu veðri. Það liðu tólf tímar, frá því að ég fór að heiman og kom heim aftur. Ég sat mestan tímann á hestbaki, á Breka mínum, sem reyndist mér vel, hræðist hvorki keldur né einstigi um lækjargil, þótt sleip séu eftir miklar rigningar undanfarið

Fé hefur fækkað síðan ég smalaði síðast, 2006. Dilkarnir koma vel af fjalli. Beitarlandið er grösugt og þar sést viða í víði, sem er skýrt merki um, að ekki sé um ofbeit að ræða. Bændur sjá merki þess að skordýrum fjölgar, því að fuglar tæta landið meira en áður.

Ég fór austan Rangár norður fyrir Hafrafell og inn undir Austurdal, áður við var snúið og féð síðan rekið austan Þríhyrnings niður í gegnum Lambalækjarlandið og í réttarhólfið við Goðaland. Réttað verður á morgun.

Í 1. gr. laga um ríkisábyrgð vegna Icesave segir.

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Fráleitt er láta sér til hugar koma, að ríkisstjórnin geti breytt þessu ákvæði með bráðabirgðalögum, þótt Jóhanna og Steingrímur J. velti þeim kosti fyrir sér.

Hinn 5. september birti ég eftirfarandi tillögu hér á síðunni:

Hér er tillaga um málsmeðferð í Icesave-málinu eftir samþykkt alþingis á fyrirvörunum: 

Íslensk stjórnvöld sendi skriflega orðsendingu til stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi, þar sem tilkynnt er um fyrirvarana og þeir skilmerkilega tíundaðir. Óskað verði skriflegs svars frá Bretum og Hollendingum með samþykki þeirra, þar sem tekið yrði fram að fyrirvararnir séu jafngildir öðrum ákvæðum samkomulagsins og ekki beri að túlka nein ákvæði upphaflegs samningstexta á annan veg en leiddi af fyrirvörunum.

Á þennan hátt geta málsvarar fyrirvaranna á alþingi tryggt, að þeir verði örugglega virtir. Hér yrði einnig gengið til afgreiðslu málsins fyrir opnum tjöldum en ekki á lokuðum fundum. Icesave-málið er prófsteinn á heilindi ríkisstjórnarinnar við gæslu hagsmuna þjóðarinnar út á við. Falli hún á þessu prófi, fær hún einnig endanlega falleinkunn á ESB-prófinu, hvað sem spurningunum 2.500 líður.