4.9.2009

Föstudagur, 04. 09. 09.

Í morgun ók upp í Reykholt í Borgarfirði og flutti þar stutt setningarávarp á ráðstefnu um forna þingstaði við N-Atlantshaf. Þingvellir eru þar í fyrsta sæti og eini staðurinn, sem hefur verið festur á heimsminjaskrá UNESCO. Hugmyndin er, að þingstaðir í öðrum löndum verði hluti af raðskráningu með Þingvelli sem flaggskip. Nú hefur fengist fé úr sjóðum Evrópusambandsins til að halda þessu verkefni lifandi og stuðla að frekari rannsóknum. Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar, Skotar og Manarbúar koma að verkefninu.

Í fyrra sat ég ráðstefnu um sama efni í Gulen í Noregi, þar sem menn hafa reist minnisvarða um Gulaþing. Magne Bjergene hafði frumkvæði að þessu verkefni í Noregi og sýndi okkur mikla vináttu og gestrisni í ferðinni. Hann er nú látinn og sömu sögu er að segja um Sigurð K. Oddsson, þjóðgarðsvörð, sem var frumkvöðull í málinu hér fyrir hönd Þingvallanefndar. Minntist ég þeirra beggja í ávarpsorðum mínum.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í dag um mat norska sendiherrans gagnvart ESB á EES-samningnum, sem er að sjálfsögðu í fullu gildi.