20.8.2009

Fimmtudagur, 20. 08. 09.

Eins og ég rakti hér í gær sá Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, tilefni til að ræða um „skrímsladeild“ Sjálfstæðisflokksins vegna skoðana minna. Smáfuglarnir á vefsíðunn www.amx.is ræða málið í dag og segja meðal annars:

Smáfuglarnir minnast þess, að í sjónvarpsþættinum Næturvaktin, þar sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson birtist einu sinni sem leikari hafi hugtakið „skrímsladeild“ verið notað. Afgreiðslumaðurinn, Georg Bjarnfreðarson, montinn, en vansæll vinstri maður með ótal háskólapróf, segir við Hannes Hólmstein, að hann sé fulltrúi „skrímsladeildarinnar“. Smáfuglarnir velta fyrir sér, hvort líta beri á Gunnar Helga Kristinsson sem fyrirmynd Georgs eða eftirlíkingu.

Myndbrotið með Hannesi Hólmsteini var sett á Youtube og bloggaði Valgeir Helgi Bergþórsson þannig um það á síðu sína 9. desember 2007:

„Þetta brot er þegar Hannes Hólmsteinn Gizzurarson kemur á bensínstöðina og fær þessa þvílíku úthýðingu frá Georgi (Jón Gnarr). Ég verð að segja að þetta er með því fyndnara sem ég hef séð, enda verð ég að hrósa honum Hannesi fyrir að hafa svona mikin húmor fyrir sjálfum sér.“

Ég tek undir með Valgeiri Helga, að þetta er bráðfyndið myndbrot. Yfirlæti Georgs birtist í ýmsum myndum þessa dagana og ræði ég það meðal annars í pistli mínum í dag, þegar ég vík að Steingrími J. Sigfússyni.