12.7.2009

Sunnudagur, 12. 07. 09.

Málflutningur þeirra, sem vilja, að tillaga ríkisstjórnarinnar um ESB-málið verði samþykkt á alþingi, einkennist af hroka og yfirlæti. Hvers vegna? Líklega til að staðfesta enn frekar elítu-stimpilinn, það er að þeir viti betur, aðrir séu ekki annað en heimaalnir bjálfar, sem vilji einangra land og þjóð.

Enginn er dæmigerðari fulltrúi 101-elítunnar en Egill Helgason, álitsgjafi og þáttarstjórnandi hjá ríkissjónvarpinu. Hann segir á bloggi sínu 12. júlí:

„Kúvendingar Bjarna Benediktssonar í ESB málum eru mjög sérstæðar. Þegar hann er farinn að flytja tillögur um tvöfalda þjóðaratvæðagreiðslu er það ekki dæmi um sérstaka lýðræðisást, heldur einfaldlega til marks um að flokkur hans ræður ekki almennilega við þetta mál.“

 

Egill kýs stundum að láta eins og hann sé gullfiskur en ekki marktækur álitsgjafi. Hér ræður gullfiskaminnið. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti, að leggja skyldi umsókn um ESB-aðild fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Í ESB-málinu er framganga formanns Sjálfstæðisflokksins ekki undrunarefni heldur formanns vinstri-grænna, Steingríms J. Sigfússonar, sem gengur á svig við kosningaloforð eigin flokks. Munurinn er hins vegar sá, að Steingrími J. er hrósað af ESB-elítunni, sem hann veittist að í sjónvarpssal daginn eftir kjördag, fyrir að hafa tekið U-beygju en ráðist er gegn Bjarna Benediktssyni fyrir að fylgja fram stefnu flokks síns, sem var mótuð fyrir kosningar.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, ráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar og Össurar í ESB-málum, bloggar 12. júlí:

„På den mer positiva planhalvan följer vi självfallet diskussionen i Alltinget i Island om att ansöka om medlemsskap i Europeiska Unionen. På ett eller annat sätt kommer sannolikt ett avgörande inom mycket nära framtid – och då skall vi vara redo för det.“

Hér fer ekkert á milli mála. Bildt telur, að alþingi sé að fjalla um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann er við öllu búinn.