18.6.2009

Fimmtudagur, 18. 06. 09

Morgunblaðið birti litla eindálka frétt 17. júní þess efnis, að aðstoðarfjármálaráðherra Rússa hefði hinn 16. júní sagt, að Íslendingar þyrftu ekki  lán frá Rússum í ár en kannski yrði það veitt árið 2010. Við bankahrunið lék allt á reiðiskjálfi langt út fyrir landsteinana, þegar Davíð Oddsson skýrði frá því snemma morguns, að rússneski sendiherrann hefði tilkynnt sér enn fyrr um morguninn, að Rússar ætluðu að veita Íslendingum nokkurra milljarða evru lán til að treysta gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar.

Nú er þetta lán sem sagt orðið að engu í ár. Stórfréttin á forsíðu er orðin að eindálki inni í blaði og látið eins og það skipti í raun litlu sem engu, að Rússar ætli ekki að lána okkur neitt.  Ég var í hópi þeirra, sem kippti mér ekki mikið upp við tilkynningu Rússa en sagði, að hana yrði auðvitað að skoða í geopólitísku ljósi.

Spurning er, hve margt af því, sem menn hafa talið stórféttir undandarna mánuði, endar sem eindálkur inni í blaði, þegar öll kurl koma til grafar. Auðvitað væri til dæmis æskilegt, að ICESAVE-málið fengi einhvern slíkan enda. Því miður virðist hins vegar þannig um hnúta búið af íslensku samninganefndinni, að okkur séu allar bjargir bannaðar samkvæmt því skjali, sem kynnt hefur verið, auk þess sem Jóhanna Sigurðardóttir segir, að annað hvort öxlum við þessar skuldbindingar eða einangrumst í alþjóðasamfélaginu.

Ber að skilja einangrunarhótun forsætisráðherra svo, að hér sé um að ræða peningana eða lífið. Ótrúlegt er, að íslensku þjóðinni sé stillt þannig upp við vegg af nágrannaþjóðum vegna uppgjörs á reikningum í bankakerfi, sem hrundi innan ramma sameiginlegs regluverks þjóðanna, EES-regluverksins.

Sami forsætisráðherra, sem lýsir hótunum Hollendinga og Breta á þennan hátt, telur það svo þjóðinni helst til bjargar að ganga til enn nánara samstarfs við þessar þjóðir innan vébanda Evrópusambandsins.