15.6.2009

Mánudagur, 15. 06. 09.

Í raun er furðulegt að fylgjast með því, hve utanríkisráðherra og forsætisráðherra ganga langt í opinberum yfirlýsingum og samtölum við ráðamenn annarra ríkja um aðildarviðræður við Evrópusambandið, á meðan málið er enn á núverandi stigi á alþingi.

Þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, svo að ekki sé minnst á Ögmund Jónasson, hafa árum saman sagt framkvæmdavaldið troða alþingi um tær. Nú láta þau eins og afstaða þingsins til aðildarviðræðna við Evrópusambandið skipti í raun engu, tilmæli um viðræðurnar verði send fyrir lok júlí, hvað sem tautar og raular. Efnt er til fagnaðarfundar um ESB-aðildarviðræður með forsætisráðherrum Norðurlanda á Egilsstöðum.

Í dag ritaði ég pistil á vefsíðu mína um tvær nýjar bækur Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson og Ný framtíðarsýn eftir Þorkel Sigurlaugsson.