21.5.2009

Fimmtudagur, 21. 05. 09.

Kammersveit Reykjavíkur hélt 35 ára afmælistónleika í Langholtskirkju í kvöld undir merkjum listahátíðar í Reykjavík. Tónleikarnir báru heitið: Konur úr Austurvegi og vísaði það til þess, að verkin voru eftir konur frá Rússlandi, Kasakstan, Malasíu og Aserbaídsjan. Vladmir Stoupel stjórnaði.

Rut, kona mín, hefur leitt starf Kammersveitar Reykjavíkur í þessi 35 ár, eða frá því á listahátíð í Reykjavík árið 1974, þegar nokkrir hljóðfæraleikarar ákváðu að taka höndum saman og skapa sér þennan vettvang til að flytja list sína.

Í morgun var ég í girðingarvinnu í blíðunni í Fljótshlíðinni. Verður fróðlegt að sjá, hvort mér hefur tekist að gera það fjárhelt, sem ég var að bæta.