20.5.2009

Miðvikudagur, 20. 05. 09.

Í kvöldfréttum RÚV var sagt frá gagnrýni framsóknarmanna á ríkisstjórnina fyrir að leggja ekki mál, sem varða hag heimila og fyrirtækja fram á þingi. Þegar við sjálfstæðismenn fluttum slíka gagnrýni á þingi fyrir kosningar og kröfðumst þess, að stjórnarskrárbreytingar vikju af dagskrá þingsins fyrir brýnni málum, áttu framsóknarmenn ekki nægilega sterk orð til að lýsa hneykslan sinni á málflutningi okkar. Batnandi mönnum er best að lifa.

Hið augljósa er, að ríkisstjórnin hefur ekki burði til að leggja fram tillögur um þau efni, sem framsóknarmenn vilja ræða á þingi núna. Stefnuumræðan 18. maí sýndi, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er enn að skoða og búa sig undir að gera áætlun um eitthvað, sem hugsanlega á að gera. Hið eina ráð, sem Jóhanna hefur, er að fara beint í Evrópusambandið en um það er ekki samstaða meðal stjórnarliða.

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir atvinnuleysi verða 2% meira en gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, þess vegna sé milljarða gat í henni. Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, mótmælir því, að áætlun borgarinnar sé óraunhæf en segist undrandi á því, að Dagur B., nýkominn frá því að mynda ríkisstjórn, skuli vera svona svartsýnn. Hvort ekki sé ætlun stjórnarflokkanna að vinna bug á atvinnuleysinu?