18.5.2009

Mánudagur, 18. 05. 09.

Þegar ég hlustaði á ræður þingmanna um stefnuræðu forsætisráðherra (stefnuræðan geymdi ekkert nýtt), kom mér á óvart, að heyra tóninn í ræðum fulltrúa Framsóknarflokksins, sem nýir eru á þingi, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Vigdísar Hauksdóttur og Guðmundar Steingrímssonar, í garð ríkisstjórnarinnar.  Var hann allur annar en heyra mátti í þingmönnum framsóknar fyrir kosningar, þegar þeir báru blak af ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna. Nú er stjórn þessara sömu flokka ekki til neinna stórverka og á leið „norður og niður“.

Hitt var ekki síður merkilegt að hlusta á Samfylkinguna tala um nauðsyn þess, að ekki mætti deila á þingi heldur ætti allt að gerast þar í sátt og samlyndi. Þetta er annar tónn en fyrir kosningar, þegar Jóhönnu Sigurðardóttur var mest um að valta yfir stjórnarandstöðuna. Þá var ekki einu sinni unnt að semja um dagskrá þingsins hvað þá annað.

Ég skil þetta sáttatal Samfylkingarinnar á þann veg, að hún voni, að með því takist henni að lokka sem flesta þingmenn til að greiða atkvæði með tillögu Össurar Skarphéðinssonar um aðildarviðræður við Evrópusambandið.  Er það aðeins enn einn leikurinn í tilraun Samfylkingarinnar til að blekkja þjóðina inn í sambandið. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, leyfði sér að gefa til kynna í ræðu sinni, að skipta mætti fljótlega um gjaldmiðil með því að ganga í ESB. Vilji menn skipta um gjaldmiðil á skömmum tíma, ber að gera það einhliða.