7.5.2009

Fimmtudagur, 07. 05. 09.

 

Í dag klukkan 16.00 var önnur úthlutun á rannsóknarstyrkjum Bjarna Benediktssonar, það er úr rannsóknarstyrktarsjóði, sem var stofnaður á síðasta ári, 30. apríl, á 100 ára afmæli föður míns til að styrkja rannsóknir á sviði lögfræði og sagnfræði.

Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, er formaður úthlutunarnefndar á sviði lögfræði og í ár hlutu styrki: Helgi Áss Grétarsson 1 m. kr. til að rannsaka stjórn fiskveiða og stjórnskipun Íslands, Gunnar Þ. Pétursson 500 þús. kr. til að rannsaka undanþágur frá grundvallarfrelsum – aðferðafræðileg áskorun og Ólafur I. Hannesson 500 þús. til að rannsaka samstarf Hæstaréttar, EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins.

Anna Agnarsdóttir, prófessor, er formaður úthlutunarnefndar á sviði sagnfræði og í ár hlutu styrki: Hannes Hólmsteinn Gissurarson 1 m. kr. til að rannsaka íslenska kommúnista 1918 til 1998. Sigurður Gylfi Magnússon  500 þús. kr. til að rannsaka vald bernsku, sagn- og hagfræðileg greining. Gunnar Þór Bjarnason 500 þús. kr. til að rannsaka heimastjórn, fullveldi og umheiminn.

Margrét Vala Kristjánsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir sem hlutu styrk í fyrra fluttu erindi um rannsóknarefni sitt:  Inntak og beiting 15. gr. stjórnarskrárinnar.

Skafti Ingimarsson sagnfræðingur greindi frá rannsókn sinni fyrir styrk frá því í fyrra á kommúnistahreyfingunni á Íslandi.  

Athöfnin var í Borgarskjalasafni og undir lok hennar kynnti Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, skjalasafn Bjarna Benediktssonar, sem þar er varðveitt og hefur nú verið skráð að verulegu leyti. Er ætlunin að opna það fyrir fræðimönnum á næstu vikum. Fengu gestir að kynna sér hluta safnsins og frágang þess.

Sjóðurinn er í vörslu Rannís og starfsmenn þar sjá um umsýslu hans gagnvart umsækjendum og við úthlutun styrkja.