25.4.2009

Laugardagur, 25. 04. 09.

Setti í dag síðasta pistil minn sem alþingismaður inn á síðuna. Þar vek ég athygli á hinni miklu blekkingu kosningabaráttunnar, að Ísland sé á leið inn í Evrópusambandið að loknum kosningum. Hver ætlar að leiða það afsal á auðlindum þjóðarinnar?

Í gær fór ég í verslun, þegar ég hafði lokið viðskiptunum, spurði kaupmaðurinn, hvort ég héldi, að kosið yrði aftur næsta haust. Ég hafði að sjálfsögðu ekki svar við því. Spurningin byggist hins vegar á þeirri meginskoðun, að sé kosið með því hugarfari að ná sér niðri á einhverjum, sé það ekki leiðin til framtíðar. Því miður heyrist mér á svörum ýmissa, sem spurðir eru á kjörstað í dag, að þeir svari á þann hátt, að þeir séu að gera upp við fortíðina. Kosningar snúast hins vegar um framtíðina.

Stjórnmál snúast um framtíðina, að leggja línur til að ná betri árangri en áður. Hér hafa tveir flokkar kosið forystu til framtíðar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Hvorki Samfylking né vinstri-grænir hafa valið sér framtíðarforystu. Kosningabarátta þeirra hefur einnig verið háð með vísan til fortíðar. Engin samstaða er hjá þessum flokkum um framtíðina. Setjist þeir í ríkisstjórn að kosningum loknum verður þessi staðreynd enn skýrari en áður.