21.4.2009

Þriðjudagur, 21. 04. 09.

Umræðurnar um Evrópumálin verða æ einkennilegri, þegar litið er til þess, hvernig vinstri/grænir eru teknir til við að fara undan í flæmingi og hve Samfylkingin nýtur mikils stuðnings frá embættismannakerfi Evrópusambandsins. Er engu líkara en Jóhanna Sigurðardóttir hafi svarið Brusselvaldinu hollustu á þann veg, að hún ætli að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, hvað sem tautar og raular. Nú er ekki lengur rætt um nauðsyn þess að setja sér samningsmarkmið eða huga að því, hver skilyrði Evrópusambandsins verða, heldur skal keyrt á málið og Ögmundur Jónasson segir, að opna skuli allar gáttir, þjóðin eigi hvort sem er síðasta orðið.

Í Katljósi var rætt við þá Ragnar Arnalds og Benedikt Jóhannesson um Ísland og Evrópusambandið. Nokkrir einstaklingar á förnum vegi voru spurður álits á málinu og voru þeir allir nema kannski einn neikvæðir í garð aðildar Íslands. Skýrt var frá því, að sammala.is hefði haldið fund í Iðnó síðdegis, sem 150 manns sóttu en undirskriftir sammala.is væru orðnar um 9 þúsund.

Skýrt var frá því, að Helgi í Góu hefði afhent Jóhönnu Sigurðardóttur undirskriftir 21. 000 manns, sem krefjast umbóta á lífeyrissjóðakerfinu.

Varðskipið Týr kom til Eskifjarðar í morgun með smyglskútuna, sem elt var uppi og sérsveitarmenn náðu á sitt vald í úfnum sjó og næturmyrkri. Sannaðist þar enn hæfni landhelgisgæslumanna og sérsveitarmanna og mikilvægi þess, að efnt hefur verið sameiginlegra æfinga á undanförnum árum. Það liggur síður en svo í hlutarins eðli, að við ráðum yfir svo fjölhæfum og áræðnum löggæslumönnum. Að baki býr mikil þjálfun og einbeittur vilji til að takast á við allt, sem að höndum ber. Hér má hvergi láta undan síga, þótt fjárhagur ríkisins þrengist. Gæslan fær nýja flugvél nú í sumar, sem veldur byltingu í getu hennar til eftirlits á hafinu umhverfis landið.