16.4.2009

Fimmtudagur, 16. 04. 09.

 

Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til fundar klukkan 08.15 undir formennsku Lúðvíks Bergvinssonar, Samfylkingu. Fundurinn stóð í rúma klukkustund og þá var gert hlé á honum fram að hádegishléi á þingstörfum. Í því hléi var fyrst efnt til þingflokksfunda kl. 13.00, klukkan 13.30 hittust formenn stjórnmálaflokkanna og klukkan 14.00 kom sérnefndin saman.

Á fundi sérnefndarinnar kynntum við sjálfstæðismenn þessa tillögu:

„Alþingi ályktar að kjósa hlutfallskosningu 25 manna nefnd sem hafi það verkefni að leggja fyrir Alþingi tillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá í tæka tíð fyrir 17. júní 2011 svo að álykta megi um hana á hátíðarfundi Alþingis í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar.“

Tillagan hlaut ekki hljómgrunn hjá meirihluta nefndarinnar. Við lögðum einnig fram breytingartillögur við 1. og 2.gr frv. og hlutu þær ekki heldur neinn hljómgrunn. Við svo búið var nefndarfundi slitið og sendum við sjálfstæðismenn frá okkur svofellt álit:

„Við umræður í nefndinni lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram hugmynd að efnislegri sátt um 1. og 2. gr. frumvarpsins eins og sjá má á breytingartillögum minni hlutans. Þá var til viðbótar lögð fram tillaga til sátta um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Með samþykkt hennar væri lagður grunnur að vandaðri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í anda umræðunnar í þinginu undanfarna mánuði.
    Því miður sló meiri hlutinn á útrétta sáttahönd sjálfstæðismanna í öllum framangreindum liðum.“

Um klukkan 16.00 sté Birgir Ármannsson, sérnefndarmaður okkar sjálfstæðismanna, í ræðustól í þingsalnum og greindi frá niðurstöðum í nefndinni og tillögum okkar sjálfstæðismanna. Þá kvaddi Siv Friðleifsdóttir, sérnefndarmaður Framsóknarflokksins eftir brottför Valgerðar Sverrisdóttur, sér hljóðs og réðst á okkur sjálfstæðismenn af óvenjulegum ofsa og bar á okkur sakir, sem áttu ekki við nein rök að styðjast. Hún villti einnig um fyrir Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, og datt hann í þann pytt að trúa Siv. Þau héldu því fram, að við sjálfstæðismenn vildum ekki hafa ákvæði í stjórnarskrá um bann við að selja eða láta varanlega af hendi náttúruauðlindir, sem eru á hendi ríkisins, af því að þær eru ekki í einkaeign. Í tillögu okkar segir þvert á móti: „Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi.“

 

Meirihlutinn skirrist við að reyna að ná samkomulagi við okkur sjálfstæðismenn og tekur sér þess í stað fyrir hendur að snúa út úr tillögum okkar og afflytja, hann lætur sér sem sagt ekki nægja að slá á framrétta sáttahönd. Áður en umfjöllun í sérnefndinni lauk í fyrstu umræðu, vildum við sjálfstæðismenn, að nefndin tæki sér tíma til að ræða sáttaleið innan hennar, það myndi spara tíma við umræður í þingsalnum. Þá var sagt við okkur stutt og laggott: „Tími sátta er liðinn.“ Nú er öllu því, sem við kynnum til sátta hafnað af hroka og með útúrsnúningi.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld, að hún vonaði, að sjálfstæðismenn gæfu færi á atkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið á þingfundi á morgun. Ég átta mig ekki á því, hvernig henni dettur í hug, að við föllum frá rétti okkar til að halda áfram að ræða málið við aðra umræðu þess.