15.4.2009

Miðvikudagur, 14. 04. 09.

Þingfundur hófst klukkan 10.30 og nú voru önnur mál á dagskrá en stjórnarskrármálið. Niðurstaða næturfundar á þingi hafði orðið sú að vísa málinu til sérnefndar að nýju, án þess að ljúka 2. umræðu um málið, sem þýðir, að við sjálfstæðismenn getum tekið þráðinn upp að nýju í umræðunum, ef svo ber undir.

Vandræðagangur stjórnarliðsins á þingi er með eindæmum og raunar stórundarlegt, að Jóhönnu Sigurðardóttur takist ekki að ljúka þingi, þegar aðeins rúm vika er til kosninga. Ég held, að engum hafi nokkru sinni dottið í hug, að unnt væri að standa þannig að þingstörfum. Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, hefur enga stjórn á framvindu mála.

Lúðvík Bergvinsson, alþingismaður, heldur utan um daglegan þátt þingstarfa fyrir Samfylkinguna. Hann er formaður þingflokks forsætisráðherra og forseta alþingis, en virðist ekki frekar en þau hafa burði til að leiða þingstörfin til lykta.

Undarlegt er, að þessi einstæði vandræðagangur endurspeglist ekki í fréttum fjölmiðla, en þá er til þess að líta, að aðeins fréttastofa RÚV heldur úti þingfréttaritunum og þeim finnst þessi upplausn lokadaga þings fyrir kosningar greinilega ekki fréttaefni.

Ingólfur Guðbrandsson, tengdafaðir minn, var kistulagður síðdegis. Blessuð sé minning hans.