14.4.2009

Þriðjudagur, 14. 04. 09.

Alþingi kom saman eftir páskahlé síðdegis í dag.  Ég var fyrstur ræðumanna Sjálfstæðisflokksins um breytingu á stjórnarskránni, en þráðurinn var tekinn upp frá því fyrir páska. Ég sagði mundu nýta mér málfrelsi mitt fram að kosningum og þingrofi 25. apríl til að standa vörð um alþingi og vald þess til að breyta stjórnarskránni og aldrei samþykkja, að þetta vald yrði framselt til stjórnlagaþings. Alþingi yrði ekki sett í annað sæti með mínum stuðningi. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, veitti mér andsvar og sagði augljóst, að „málþófsflokkurinn“ væri að sigra í umræðum um stjórnlagaþingið og ég væri að syngja „svanasöng liðins tíma“. Ég sagðist stoltur syngja þann söng til stuðnings alþingi og heiðri þess. Það yrði ekki mitt síðasta verk á þingi að ljá niðurlægingu alþingis stuðning og hvatti ég kjósendur til að hafna þeim frambjóðendum í komandi kosningum, sem vildu vega að virðingu.

Ellert B. Schram, þingmaður Samfylkingar, spurði mig eftir eina af ræðum mínum, hvort ég vildi stuðla að sátt um stjórnarskrármálið með þeirri aðferð, að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins færum af mælendaskrá og sérnefnd um málið kæmi saman til að leita samninga um aðra þætti frumvarpsins en stjórnlagaþingið, það yrði greinilega aldrei samkomulagsmál af okkar hálfu. Ég sagðist ekki mundu samþykkja að mælendaskrá yrði afmáð, en mín vegna mætti gera hlé á 2. umræðu og halda fund í sérnefndinni. Ég vildi halda mælendaskránni vegna framkomu meirihluta sérnefndarinnar við okkur sjálfstæðismenn, ég treysti ekki meirihlutanum.

Rétt fyrir klukkan 17.00 var gert hlé á þingfundi vegna þingflokksfunda. Þá lá fyrir, að meirihlutinn hafði fallið frá ákvæðinu um stjórnlagaþing. Kanna ætti, hvað yrði um önnur ákvæði stjórnlagafrumvarpsins. Þegar fundir hófust að nýju eftir þetta hlé breytti forseti dagskránni og tók fyrir önnur mál. Þótt stjórnarskrármálið sé enn á dagskrá þingsins, hefur verið fallist á þau sjónarmið okkar sjálfstæðismanna, að önnur mál sé brýnna að ræða. Úr því sem komið er sé ég engan tilgang í því að taka stjórnarskrármálið aftur á dagskrá, nema það vaki fyrir forseta alþingis, að þing sitji fram að kjördegi.