29.3.2009 19:02

Sunnudagur, 29. 03. 09.

Rúmlega klukkan 10.00 hófst landsfundur sjálfstæðismanna að nýju og tók ég til máls í umræðum um réttarfars- og stjórnskipunarmál. Umræður voru miklar og hugmyndir eða tillögur um breytingar á ályktuninni á þann veg, að ákveðið var að málefnanefnd fundarins kæmi að nýju saman undir forystu Elísabetar Ólafsdóttur og Kristínar Edwald. Tókst þar gott samkomulag um texta, sem samþykktur var óbreyttur á landsfundinum á sjötta tímanum.

Klukkan 15.00 var formannskjör og tóku 1705 þátt í því. Bjarni Benediktsson fékk tæp 60% atkvæða og Kristján Þór Júlíusson tæp 40%. Má segja, að þetta hafi verið óskaniðurstaða miðað við jafnvægi milli frambjóðenda og Kristján Þór sagðist glaður munstra sig í áhöfn Bjarna.

Að lokinni talningu í formannskjöri var gengið til varaformannskjörs og þar hlaut Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir glæsilegt endurkjör með um 80% atkvæða.

Kynslóðaskipti hafa nú orðið í Sjálfstæðisflokknum. Kynslóð, sem náði undirtökum innan flokksins árið 1983, með formannskjöri Þorsteins Pálssonar, er að afhenda nýrri kynslóð keflið og er það vel komið í höndum þeirra Bjarna og Þorgerðar Katrínar. Þá verður einnig mikil breyting í þingliði flokksins, þegar litið er til breytinga, sem eru að verða á þingflokknum, en við, sem náðum kjöri með Davíð Oddssyni 1991, erum flestir að hverfa af þingi.

Ungt fólk skipar nú öll forystusæti Sjálfstæðisflokksins, hvort sem er á alþingi eða í borgarstjórn Reykjavíkur. Engan þarf kannski að undra, að Jóhanna Sigurðardóttir, sem setið hefur rúm 30 ár á þingi og telur sér til ágætis, að hún geti gegnt formennsku í Samfylkingunni í mörg ár, af því að amma hennar náði 100 ára aldri, skuli frekar vilja samstarf við Steingrím J. Sigfússon, sem setið hefur 25 ár á þingi, en stofna til samstarfs við ungt og dugmikið fólk í Sjálfstæðisflokknum.

Þótti mér ekki stórmannlegt af Jóhönnu að ljúka ræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar með heitingum í garð Sjálfstæðisflokksins. Á hinn bóginn var það í góðu samræmi við tóninn, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gaf í upphafi landsfundarins, en um hana fjallaði ég í grein á www.amx.is 28. mars en hana má lesa hér.

Ræða Davíðs Oddssonar á landsfundinum í gær hefur vakið miklar umræður og margt verið um hana sagt. Vitlausastar hafa þó verið fullyrðingar um, að hann hafi líkt sjálfum sér við Jesú Krist og er sorglegt, að fréttamenn hafi lagt út af orðum hans á þann veg. Máni Atlason, laganemi, brýtur þennan kafla í ræðu Davíð vel til mergjar á vefsíðu sinni eins og hér má lesa.