23.3.2009 21:56

Mánudagur, 23. 03. 09.

Var í hádeginu í stofu 101 í Odda Háskóla Íslands ásamt fulltrúum annarra flokka til að ræða um Evrópumál, öryggis- og varnarmál undir fundarstjórn Ólafs Þ. Harðarsonar.

Spurt var, hvernig vinstri-græn og Samfylking gætu starfað saman í ríkisstjórn með jafnólíka stefnu í Evrópumálum. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri-grænna, sagði nær að hugsa um annað en Evrópumál, þau væru ekki forgangsmál. Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar og frambjóðandi til varaformanns, sagði gagnlegt fyrir umræður og grósku í Evrópumálum, að flokkar með ólíkar skoðanir á þeim sætu saman í ríkisstjórn. Öðru vísi mér áður brá!

Valgerður Sverrisdóttir var hin eina, sem hélt fram nauðsyn varnarmálastofnunar. Árni Páll taldi, að sameina ætti hana og landhelgisgæslu. Aðrir sáu ekki þörf fyrir stofnunina. Í raun er furðulegt að halda því fram, að það þurfi borgaralega stofnun á vegum utanríkisráðuneytis til að sjá um hernaðarleg tengsl við NATO, eins og NATO sé ekki sama, hvar þessi borgaralega stofnun er innan íslenska stjórnkerfisins. Hvergi í heiminum heldur utanríkisráðuneyti dauðahaldi í verkefni af þessu tagi - stjórnarerindrekar láta sér almennt nægja, að sinna pólitískum úrlausnarefnum á sviði utanríkis- og öryggismála. Hér telja þeir rekstur ratsjárkerfis ekki þrífast, nema undir eigin handarjaðri.