18.3.2009 21:12

Miðvikudagur, 18. 03. 09.

Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til fundar klukkan 18.00 í dag og var sérstaklega rætt um 1. gr. frv. um breytingu á stjórnarskránni, en það snýst um þjóðareign á náttúruauðlindum og umhverfisrétt. Af viðræðum við gesti nefndarinnar dreg þá ályktun, að mjög óvarlegt sé að samþykkja ákvæðið í þeim búningi, sem þar er. Gestir kvarta auk þess undan þeim hraða, sem er á afgreiðslu málsins, enda er með öllu ástæðulaust að ætla að ljúka á einni viku eða tveimur umræðum um mál, sem skapar útgerð og þar með fiskvinnslu réttaróvissu. Að veikja grundvöll sjávarútvegsins getur varla samrýmst yfirlýstu markmiði ríkisstjórnarinnar, að bæta hag heimila og fyrirtækja - eða hvað?

Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins sagði meðal annars:

„Fresta þurfti fundi alþingis í hádeginu svo hægt væri að smala nægilega mörgum þingmönnum í þingsal til atkvæðagreiðslu. Meðal mála sem rædd voru á alþingi í dag var efling kræklingaræktar og ferðaþjónusta á Melrakkasléttu. Rúm vika er til áætlaðra þingloka. .....

Við upphaf þingfundar í dag voru fáir í þingsal, svo fáir að forseti Alþingis þurfti að fresta fundi svo hægt væri að smala í þingsal vegna atkvæðagreiðslu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það gerist. “

Ég var í þingsalnum, þegar forseti varð að blása af fund vegna fámennis við atkvæðagreiðslu. Það er fyrst og síðast hlutverk þingflokksformanna stjórnarflokkanna, Lúðvíks Bergvinssonar, Samfylkingu, og Jóns Bjarnasonar, vinstri-grænum, að sjá til þess, að nógu margir þingmenn séu í salnum til að afgreiða mál. Mannfæð skrifast á skipulagsleysi við þinghaldið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Stjórnarflokkunum ferst ekki að gagnrýna okkur sjálfstæðismenn fyrir að taka til máls á þingi, á meðan þeir geta ekki séð til þess, að mál séu afgreidd vegna skorts á þingmönnum við atkvæðagreiðslu.