9.3.2009 22:45

Mánudagur, 09. 03. 09.

Klukkan 18.00 var ég í Grafarvogskirkju og las 9. passíusálm.

Þetta skrifa ég á alþingi, þar sem enn er fundað klukkan 22.30 en til umræðu hefur verið frumvarp til laga, sem snýst um heimild manna til að nýta séreignasparnað sinn. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dró breytingartillögu sína við frumvarpið til baka til 3. umræðu og hefur hún farið fram undanfarnar klukkustundir, þar sem einkum við sjálfstæðismenn höfum rætt málið og velt fyrir okkur þeim kostum, sem fyrir hendi eru.

Fyrir um það bil klukkustund fóru stjórnarsinnar að ókyrrast vegna þessara umræðna og var það einkum Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sem fór með nokkru óðagoti um þingsalinn. Þá kom Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri grænna, á vettvang og flutti dæmalausa hávaðaræðu yfir okkur sjálfstæðismönnum og sakaði okkur um ómálefnaleg vinnubrögð og málþóf.

Stjórnarsinnar fóru þó yfir strikið í málflutningi sínum, þegar Grétar Mar Jónsson, þingmaður frjálslynda hóf umræður um fundarstjórn forseta. Lét Grétar eins og hann hefði fylgst með umræðum um málið en málflutningur hans bar þess glögg merki að svo hafði ekki verið. Væri gefið út sérprent með ræðum Grétars Mars myndu margir klóra sér í höfðinu og undrast.

Þetta upphlaup stjórnarsinna tafði umræður um séreignasparnaðinn og ráðstöfun hans í rúmar 30 mínútur.

Forseti þingsins ákvað að halda umræðum áfram og sagði, að það yrði eitthvað fram í nóttina, eins og það var orðað.

ps. þegar ég sá, að ég hafði kennt stjórnarsinna við stjórnarandstöðu leiðrétti ég textann hér að ofan. Ástæðan fyrir þessari misritun hefur verið hughrifin af því að verða vitni að ofsanum, sem er frekar einkenni stjórnarandstöðu en stjórnarsinna.