8.3.2009 19:15

Sunnudagur, 08. 03. 09.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir boðaði skyndilega til blaðamannafundar í dag og sagðist vera hætt afskiptum af stjórnmálum að svo stöddu vegna heilsubrests. Að sjálfsögðu ber Ingibjörgu Sólrúnu að setja heilsu sína í fyrsta sæti og óska ég henni góðs bata.

Eftir þrjár vikur gengur Samfylkingin til landsþings, þar sem nýr formaður verður kjörinn. Í dag tala hugsanlegir frambjóðendur óljósum orðum um áform sín en Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson segjast ekki ætla að gefa kost á sér.

Þrátt fyrir yfirlýsingu Jóhönnu er látið eins og lagt verði svo hart að henni að gefa kost á sér til formanns, að hún geti annað en látið undan þrýstingnum, enda muni allir máttarstólpar flokksins beita honum. Að telja vinnubrögð af þessu tagi sjálfsögð í stað þess að ganga hreinlega til formannskosninga, sýnir, hve innviðir Samfylkingarinnar eru veikir og hve mikill ótti ríkir þar innan dyra við að upp úr sjóði milli stríðandi fylkinga.

Þessi þörf fyrir foringjaræði er í senn arfur frá sósíalistaflokknum og arftaka hans Alþýðubandalaginu og frá Alþýðuflokknum. Flokkarnir hafa klofnað út og suður í áranna rás og vilja foringjarnir frekar nota plástra en að sárin opnist.  Jóhanna átti þátt í einum klofningi með því að stofna Þjóðvaka árið 1994. Síðan vita samherjar hennar, að hún er til alls vís, fái hún ekki sitt fram. Óðagotið á ríkisstjórn Jóhönnu endurspeglar pólitískt skapferli hennar. Þar eiga helst allir hlutir að gerast í gær.

Sumarið 1994 tókst með lagni að halda Jóhönnu í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fram yfir 50 ára lýðveldishátíðina á Þingvöllum, þrátt fyrir ágreining hennar við Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson, ráðherra Alþýðuflokksins. Nú gengst Jón Baldvin upp í því að mana Jóhönnu til að taka að sér formennsku í Samfylkingunni. Að öðrum kosti segist hann tilbúinn til að taka flokkinn á eigin herðar, flokkinn, sem ekki var unnt að stofna, fyrr en Jón Baldvin hætti beinni þátttöku í stjórnmálum, þótt hann væri alltaf með sameiningu vinstri manna á vörunum.