6.3.2009 19:56

Föstudagur, 06. 03. 09.

Björg Eva Erlendsdóttir, ritstjóri Smugunnar, málgagns vinstri-grænna, var holl stefnu Smugunnar gegn lögreglu í Kastljósi kvöldsins, þegar hún gagnrýndi aðgerðir til að koma í veg fyrir, að hingað kæmu fulltrúar Hell's Angels til að samfagna með Fáfni, stuðningsklúbbi Vítisenglanna.

Þrátt fyrir skrif Smugunnar og gagnrýni annarra á lögreglu vegna varðstöðu hennar um alþingi og stjórnarráðið mælist traust til hennar meðal þjóðarinnar 79%, aðeins Háskóli Íslands mælist með meira traust, 80%. Ég óska lögreglumönnum til hamingju með þessa niðurstöðu.

Viðbúnaður lögreglu síðustu mánuði fyrir jól og síðan átök vegna mótmæla eftir jól hafa leitt til óvæntra útgjalda. Má ætla, að embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þurfi að fá um 150 m. kr. aukafjárveitingu til að halda í horfinu. Þá þarf að fjárfesta í nýjum búnaði fyrir lögreglu eftir átökin í janúar og er þar vafalaust um nokkra tugi milljóna króna að ræða.

Fréttir berast af því, að landhelgisgæsla sé að draga saman seglin til að mæta auknum kostnaði vegna gengislækkunar.

Á sama tíma og grunnstofnanir ríkisins og öryggis til lands og sjávar búa við of þröngan fjárhagsramma flytur Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra framsöguræðu á þingi fyrir frumvarpi um stjórnlagaþing, sem mun  líklega kosta allt að einum og hálfum milljarði króna að halda.

Þessa forgangsröðun við ákvörðun opinberra útgjalda má rekja beint til myndunar minnihlutastjórnar Jóhönnu, því að ákvörðun framsóknarmanna um að verja stjórnina vantrausti var þessu verði keypt. Framsóknarmenn kasta fram einhverjum hugdettum og setja á þær það verð, að aðrir skuli taka að sér að hrinda þeim í framkvæmd til að kaupa stuðning þeirra.