4.3.2009 11:29

Miðvikudagur, 04. 03. 09.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, bloggar mikið, oft á dag stundum. Hann var nýlega í Peking og komst þá að því, að hann gat ekki sent frá sér sitt daglega blogg, vegna þess að kínversk yfirvöld hafa lokað fyrir slíkt. Hér má sjá, hvernig sagt er frá þessu á síðu Bildts og eftir heimkomu frá Kína hefur hann áréttað, að slíkt blogg-bann er í gildi.

Ég var í Kína um mánaðamótin júní/júlí 2004 eins og sjá má hér á síðunni. Þá gat ég hindrunarlaust sent efni á síðuna mína og sannreyndi í sérkennilegum samskiptum við blaðamann Fréttablaðsins, að færslur fóru jafnharðan inn á síðuna. Reynsla Bildts segir mér, að kínversk yfirvöld hafi hert ritskoðunartökin á blogginu.

Ég hef haldið því fram og fært fyrir því rök, að óheppilegt og óvarlegt sé að standa þannig að skipun eða ráðningu í starf seðlabankastjóra, að óvissa vakni um lögmæti þess, sem hann tekur sér fyrir hendur, til dæmis að ákveða að hér skuli gilda gjaldeyrishöft fram á næsta haust. Hér er um lögfræðilegt álitamál að ræða og dómstólar eiga síðasta orð um þau.

Ég sé, að Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fastagestur í Spegli RÚV og víðar, fer hörðum orðum um Steinunni Sigurðardóttur, rithöfund, í Fréttablaðinu í dag fyrir að hafa gagnrýnt, að Norðmaður skyldi settur í embætti seðlabankastjóra. Reiði Þórólfs byggist á því, að hann hafi í útvarpsviðtali mælt með „að kallaðir yrðu til erlendir sérfræðingar til að manna lykilstöður í íslensku fjármálalífi.“ Þykir honum mikil býsn, að einhver dragi réttmæti þessa í efa.

Málsvarar hins erlenda seðlabankastjóra hafa fundið sér til málsbóta, að Þorsteinn Pálsson hafi á sínum tíma sett erlendan mann, sem var að bíða eftir afgreiðslu á beiðni sinni um ríkisborgararétt, sóknarprest austur á landi.  Af því tilefni segir Þórólfur:

„Nú efast annar fyrrverandi kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason, um gildi ákvarðana núverandi seðlabankastjóra. Ætli hann vilji ógilda giftingar og greftranir austur á landi í leiðinni?“

Byggi Þórólfur ályktanir sínar um hagfræðileg mál á jafnvitlausum grunni og þessa spurningu til mín, gef ég ekki mikið fyrir þær, og skil enn síður en áður, hvers vegna stöðugt er leitað álits hans. Aðeins dómstólar geta sagt um það, hvort embættisathafnir prestsins hafi verið lögmætar eða ekki. Á það kynni að reyna í skilnaðarmáli og með öllu óþarft að hafa slíkt í oflætislegum flimtingum.