3.3.2009 22:12

Þriðjudagur, 03. 03. 09.

Í síðustu viku flutti ég ásamt 15 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins frumvarp til breytinga á lögum í því skyni að banna fjármálafyrirtækjum að neita að veita eigendum hlutdeildarskírteina í fjárfestingarsjóðum upplýsingar, en slík synjun getur leitt til þess, að eigendunum sé gert ókleift að leiða fram nauðsynlegar sannanir til að gæta réttar síns gagnvart fjármálafyrirtækinu. Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að með vísan til þagnarskyldu eða bankaleyndar sé gengið gegn eðlilegum rétti einstaklings til að gæta réttar síns.

Ekki hefur reynt á það fyrir íslenskum dómstólum hvort réttur viðskiptamanns til upplýsinga um meðferð á fjármunum hans sé ríkari en þagnarskylda og bankaleynd. Fyrir því hafa verið færð rök að ákvæðum um þagnarskyldu sé fyrst og fremst ætlað að tryggja hagsmuni viðskiptavina fjármálastofnana, sbr. t.d. sératkvæði í dómi Hæstaréttar í máli nr. 59/ 2006.

Þótt niðurstaða íslenskra dómstóla yrði sú að réttur einstaklings til upplýsinga verði viðurkenndur, yrði látið á það reyna, þykir eðlilegt að löggjafinn taki af öll tvímæli í þessu efni. Með því vinnst tvennt: réttaróvissu er eytt og þar með einnig nauðsyn þess að stofna sérstaklega til málaferla til að fá úr henni skorið. Loks er enginn vafi á því að samþykkt frumvarpsins yki aðhald og eftirlit með fjármálastofnunum.

Óskarsverðlaunamyndin um Mombai-drenginn, sem vann milljón, stendur vel fyrir sínu.