25.2.2009 21:43

Miðvikudagur, 25. 02. 09.

Eins og lesendur síðu minnar sjá hefur útlit hennar breyst frá og með deginum í dag. Ég fór þess á leit við þá Hugsmiðjumenn, að þeir myndu hressa upp á síðuna í tilefni af 14 ára afmæli hennar, sem er um þessar mundir. Fyrstu skref þeirrar hönnunar eru kynnt í dag. Ég mun væntanlega læra næstu daga, hvað fleira en þetta nýja yfirbragð er í boði innan hins nýja ramma .

Í dag var skýrt frá eigendaskiptum á Árvakri hf., útgáfufélaginu, sem stendur að baki Morgunblaðinu. Þórsmörk, hópur fjárfesta undir forystu Óskars Magnússonar, hrl., hefur keypt félagið með samkomulagi við Íslandsbanka (áður Glitni). Á mbl.is má lesa:

„Auk Óskars eru Gísli Baldur Garðarsson, Guðbjörg Matthíasdóttir, Gunnar B. Dungal, Pétur H. Pálsson, Þorgeir Baldursson og Þorsteinn Már Baldvinsson aðilar að Þórsmörk. Til að dreifa eignaraðildinni enn frekar er ráðgert að fleiri hluthafar komi til liðs við félagið á síðari stigum.

Við kaupin færist hlutafé fyrri eigenda niður í núll. Áskilnaður er um að samningar takist við aðra lánardrottna Árvakurs en Íslandsbanka á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að þegar niðurstaða fæst verði boðað til hluthafafundar.

Þrjú skuldbindandi tilboð bárust í Árvakur í síðustu viku og tók Íslandsbanki tvö þeirra til nánari skoðunar, tilboð ástralska fjárfestisins Steve Cossers og viðskiptafélaga hans, annars vegar, og tilboð frá Þórsmörk.“

Það er fagnaðarefni, að öflugir fjárfestar koma að Árvakri og tryggja framhald á útgáfu Morgunblaðsins.