20.2.2009 17:34

Föstudagur, 20. 02. 09.

Önnur umræða um frumvarpið til breytinga á seðlabankalögunum var á þingi í dag, frumvarpið hefur batnað í meðförum þingnefndar, enda var annað óhjákvæmilegt á slíkri hrákasmíði. Við sjálfstæðismenn greiddum atkvæði með breytingartillögunum en viljum fá frumvarpið til umræðu í þingnefnd á milli umræðna í von um, að enn megi draga úr ágöllum á frumvarpinu. Þriðja umræða er boðuð næstkomandi mánudag.

Ragnheiður Ólafsdóttir situr á þingi þessa daga sem varamaður Guðjóns Arnars Kristjánssonar, fomanns Frjálslynda flokksins, sem ferðast um landið í von um að geta styrkt innviði flokks síns. Ragnheiður virðist líta á það sem sérstakt hlutverk sitt á þingi að siða okkur þingmenn og setja okkur lífs- og vinnureglur henni að skapi og segist hún tala fyrir munn „fólksins í landinu“ með umvöndunum sínum.

Svona syrpur eru teknar á þingi af og til, enda töluverð viðbrigði fyrir fólk að koma á þennan vinnustað eins og alla aðra í fyrsta sinn. Það átti sér hins vegar enga stoð hjá Ragnheiði í dag, þegar hún sakaði sjálfstæðismenn um að vera með málþóf vegna seðlabankafrumvarpsins. Þar skaut hún illilega yfir markið.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru 26, eftir að Jón Magnússon yfirgaf frjálslynda. Þótt þeir þingmenn, sem sitja í viðskiptanefnd auk fáeinna annarra, láti í ljós skoðun sína á jafnstóru máli og breytingu á lögum um seðlabanka og tali fæstir í þær 20 mínútur, sem þeir hafa til umráða, er ekki unnt að kenna það við málþóf.

Sjálfstæðismenn hafa að vísu meiri burði en aðrir til þess að beita málþófi á þingi til að stöðva óhæfuverk. Því kann vissulega að verða beitt fyrir lok þessa þings, ef nauðsyn krefst. Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli að gera tilraun til að knýja fram stjórnlagabreytingar, án þess að stofna til þess samráðs allra flokka, sem hefðbundið er vegna slíkra mála.