3.2.2009 10:55

Þriðjudagur, 03. 02. 09.

Jóhanna Sigurðardóttir fer einkennilega af stað sem forsætisráðherra með digurbarkalegum en röngum yfirlýsingum á kostnað annarra eins og ég lýsi hér í pistli á www.amx.is

Það virtust ekki miklir sameiginlegir straumar koma frá þeim Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra á fyrsta blaðamannafundi þeirra í ráðherraembættum í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Þau töluðu út og suður um stórmál og hin minni á að „skoða“. svo að notað sé orðið, sem Jóhanna er sögð hafa brúkað 40 sinnum í Kastljósi í gærkvöldi.

Í sjónvarpinu var sýnt bréf Jóhönnu til Davíðs Oddssonar, þar sem hún býður honum að segja seðlabankastjórastarfinu lausu. Hún sagði einnig, að Davíð hefði hringt í sig frá útlöndum en samtalið væri einkamál þeirra - en bréfið? Er það í anda góðrar stjórnsýslu að birta bréf innan hennar opinberlega, áður en því hefur verið svarað? Ég minnist þess ekki, að þannig hafi verið staðið að samskiptum við embættismann. Gilda sérstakar stjórnsýslureglur, þegar Davíð Oddsson á í hlut?

Á þeim tíma, sem ég sat í ríkisstjórn með Samfylkingunni, man ég ekki eftir, að hún hafi lýst nokkrum efnislegum ágreiningi vegna ákvarðana bankastjórnar seðlabankans á fundum ríkisstjórnarinnar, nema þegar Össur Skarphéðinsson varð hræddur um stólinn sinn, af því að Davíð nefndi orðið þjóðstjórn en gat þess jafnframt, að hún væri ekki góður kostur, þar sem engin yrði stjórnarandstaðan.

Ríkisstjórnin með Jóhönnu Sigurðardóttur innan borðs hefur borið ábyrgð á peningamálastefnunni og öllum meginákvörðunum um peninga- og bankamál. Peningamálastefnan var mótuð af Seðlabanka Íslands á þeim tíma, þegar Már Guðmundsson var aðalhagfræðingur seðlabankans, en helst virðist nú litið til hans sem einvalds í seðlabankanum. Ætli hann hafi skipt um skoðun í peningamálum?

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru ekki á einu máli, þegar rætt er um framtíð íslensku krónunnar - mér heyrðist Jóhanna að vísu segja, að það yrði að taka upp evru til að styrkja krónuna! Vissulega nýstárleg leið en Steingrímur J. vill líta á norsku krónuna og ætlar að ræða það mál við flokkssystur sína, norska fjármálaráðherrann, um helgina. Hann hefur þó ekki umboð Jóhönnu til neins annars en að skoða málið. Hver skyldi annars vera skoðun framsóknarmannsins í yfirfrakka ríkisstjórnarinnar á gjaldmiðilsmálinu?

Steingrímur J. sjávarútvegsráðgerra segist hafa sent viðvörun til hvalveiðimanna og er hún túlkuð á þann veg, að hann sé að búa sig undir að afturkalla hvalveiðiheimildina. 75% landsmanna styðja ákvörðun um að heimila hvalveiðar. Furðulegt er að heyra Steingrím J. tala um ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar á þann veg, að hún standist tæplega stjórnskipunarlega. Hverjir hafa degið það í efa? Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur, sem telja verður, að hafi alls ekki kynnt sér málið með vísan til starfa starfsstjórna í áranna rás. Og svo segir Steingrímur J. að ákvörðun Einars K. hafi ekki verið neinn „vinargreiði“ við sig. Miðað við geðþóttaákvarðanir ráðherranna fyrstu sólarhringa þeirra í embætti er kannski engin furða, þótt þetta orð sé ofarlega í huga Steingríms J. Því ber hins vegar að halda jafnlangt frá stjórnsýsluákvörðunum og óvináttu og haturshug.

Ég mæli með myndinni Valkyrja um morðtilræðið við Adolf Hitler 20 júlí 1944. Boðskapur hennar er, að óhjákvæmilegt hafi verið að gera tilræði við Hitler, til að sagan geymdi ekki þá mynd af Þjóðverjum, að þeir hefðu sætt sig við ógnarstjórn hans og stríðsæði. Þess vegna eru þeir, sem að tilræðinu stóðu þjóðhetjur í þýskri sögu. Claus von Stauffenberg ofursta, fyrirliða tilræðismannanna, leikur Tom Cruise og er sagt, að Þjóðverjar hafi tekið hann í sátt, eftir að myndin var frumsýnd, en þeir töldu margir, að með því að fela Cruise  aðalhlutverkið væri minningu Stauufenbergs sýnd óvirðing. Raunar er þarna valinn maður í hverju rúmi og allt gert af mikilli fagmennsku.