22.1.2009 19:09

Fimmtudagur, 22. 01. 09.

Atburðum næturinnar, þegar lögregla varð að beita táragasi til að verja alþingishúsið, verður lengi minnst vegna styrks og skipulegrar framgöngu lögreglu og harkalegra tilrauna til að brjóta hana á bak aftur. Sömu nótt þurfti lögregla einnig að verja stjórnarráðshúsið.

Bæði á Austurvelli og við Lækjartorg var grjóti og götusteinum kastað í lögreglu, saur og hlandi í plastpokum, sem endurspeglar innræti þeirra, sem töldu þetta hæfa skoðunum sínum á framvindu þjóðmála, en undir þeim formerkjum var til mótmæla stofnað, sem þróuðust á þennan sorglega hátt.

Í kvöldfréttum ljósvakamiðlanna var rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingar og utanríkisráðherra, af sjúkrabeði hennar í Stokkhólmi, en hún taldi, að þau Geir H. Haarde væru sammála um, að boðað yrði til kosninga í vor. Hver framvinda stjórnmála verður næstu daga er meira spennandi en fréttir af mótmælum á Austurvelli - en þar fjölgar fólki alltaf eftir beinar útsendingar sjónvarpsstöðvanna í kvöldfréttum. Engu er líkara en fréttamenn séu að réttlæta þessar útsendingar með því að láta í veðri vaka, að fólki fjölgi alltaf, þegar þeir birtast á skjánum.

Í dag hefði verið réttmætt, að fréttamenn vektu rækilega athygli á hinni hörmulegu framgöngu of margra gegn lögreglunni. Sjö lögreglumenn voru fluttir slasaðir af vettvangi í nótt, einn með höfuðáverka. Í dag var skýrt frá því, að óprúttnir andstæðingar lögreglunnar settu nöfn og heimilisföng einstakra lögreglumanna inn á vefsíður með ábendingum um fjölskylduhagi - er þetta greinilega gert til að hóta lögreglumönnum fyrir að sinna skyldustörfum sínum. Þetta framferði er í hróplegri andstöðu við hina grímuklæddu mótmælendur.

Landssamband lögreglumanna hefur réttilega brugðist gegn þessum árásum á lögreglu, eins og sjá má á þessari tilkynningu.

Skýrt var frá því, að hjónunum Elínu Sveinsdóttur, útsendingarstjóra, og Sigmundi Erni Rúnarssyni, yfirmanni fréttasviðs Stöðvar 2, hefði verið sagt upp í dag. Sigmundur Ernir sagðist fagna því eða vera frjáls undan oki auðjöfra. Var einhver að tala um Baugsmiðla?

Klukkan 20.00 var ég á fundi um Evrópumál hjá sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ. Ágúst Hjörtur Ingþórsson var frummælandi ásamt mér. Fjöldi fyrirspurna barst enda fundarmenn fjölmargir.