20.1.2009 21:43

Þriðjudagur, 20. 01. 09.

Fyrir hádegi birti dóms- og kirkjumálaráðuneytið tilkynningu um neikvæð viðbrögð mín við þeirri ákvörðun sýslumannsins á Selfossi að láta lögreglu handtaka 370 manns í Árnerssýslu, sem ekki hefðu sinnt boði um fjárnám.

Klukkan 13.00 hófust mótmæli við alþingishúsið, sem hvatt hafði verið til af Röddum fólksins, það er Herði Torfasyni og samstarfsmönnum hans. Þeir hafa staðið fyrir friðsömum laugardags-mótmælum á Austurvelli. Var fólk hvatt til þess að koma með koppa og kirnur til að lemja í því skyni að vekja athygli okkar alþingismanna, en þing hófst í dag að nýju eftir jólahlé. Ögmundur Jónasson flutti dæmalausa ræðu í upphafi fundar til að ganga í augun á mótmælendum fyrir utan húsið.

Þingfundur stóð með stuttu hléi fram á fimmta tímann. Þá settust margir þingmenn í skálann við þinghúsið og annars staðar og fylgdust með því, þegar Barack Obama sór embættiseið, sem 44. forseti Bandaríkjanna. Mér þótti ræðan, sem Obama flutti í Chicago eftir sigur sinn í forsetakjörinu betri en embættistökuræðan.

Ég fór heim úr þinginu um klukkan 19.00 en þá hafði ég hitt lögreglumenn, sem höfðu staðið vaktina við þinghúsið allan daginn og lent í átökum við mótmælendur, sem lömdu um tíma glerveggina milli skálans og þinghússins svo duglega, að lögregla varð að beita valdi til að varna þeim skemmdum.  Ég þakkaði lögreglumönnunum framgöngu þeirra við þessar erfiðu og sem betur fer einstöku aðstæður.

Í Kastljósi var Helga Vala Helgadóttir, laganemi og samfylkingarkona, og sagði þetta dag 1 í mótmælum, þótt ólögráða dóttir hennar hefði verið handtekin af lögreglu. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, var einnig í Kastljósi og sagði lögreglu hafa þurft að verja 11 ára gamalt barn, sem hafði verið með foreldrum sínum í fremstu röð mótmælenda í þinghúsgarðinum, en þar virtist hitinn mestur. Lögregla handtók 22 og geymdi suma í bílageymslu þingmanna undir skálanum.

Helgi Seljan var með beina útsendingu í Kastljósi frá mótmælendum. Kom hann inn í þáttinn oftar en einu sinni og fjölgaði þeim, sem lögðu leið sína á Austurvöll, eftir að hann hafði lokið máli sínu.  Þar logaði eldur fyrir framan skálann og kastað var á húsið málningu.