19.1.2009 21:55

Mánudagur, 19. 01. 09.

Pétur H. Blöndal, flokksbróðir minn á þingi, hefur hvað eftir annað sagt, að hvetja eigi til þess, að heimskunnir hagfræðingar komi hingað til lands og geri á eigin kostnað úttekt á því, sem gerðist í bankahruninu, aðdraganda og afleiðingum. Opna eigi öll gögn til slíkra rannsókna, því að atburðir hér séu einstakir í hagfræðisögunni og með rannsóknum á þeim gætu menn jafnvel öðlast Nóbelsverðlaun í hagfræði.

Ég nefndi í Silfri Egils í gær, að hinn heimskunni sagnfræðiprófessor við Harvard-háskóla, Niall Fergusson, hefði ritað grein um aðdraganda fjármálakrísunnar í heiminum í nýjasta hefti tímaritsins Vanity Fair. Þar er sagt frá ýmsu, sem skýrir, hvernig er komið fyrir okkur Íslendingum. Þetta vilja þeir ekki lesa eða heyra, sem láta eins og aðeins sé við íslensk stjórnvöld að sakast í þessu efni og einhver bloggari vildi gera lítið úr mér fyrir að nefna tímaritið Vanity Fair til sögunnar, það væri líklega ekki nógu fínt til að nefna við Egil Helgason - mér finnst innihaldið skipta meira máli en umbúðirnar, en þeir, sem hafa áhuga á að lesa grein Nialls, geta nálgast hana hér á vefsíðu hans.

Hingað hefur komið fjöldi erlendra hagfræðinga undanfarnar vikur og mánuði, sagt frá eigin varnaðarorðum í aðdraganda hrunsins, dæmt aðgerðir síðan og lýst því, sem gera skuli. Umræður af þessu tagi eru vissulega gagnlegar til að kynnast ólíkum sjónarmiðum til málefna. Þær leysa hins vegar ekki neinn vanda, því að ráðin eru eins mörg og mennirnir.

Grein Nialls sýnir, að of mikil einföldun er að kenna atburði hér og erlendis við „nýfrjálshyggju“ eða frjálshyggju almennt. Lánsfé varð of ódýrt og of margir létu freistast - Niall kallar síðustu tíma The Age of Leverage eða Tíma vogunar.