10.1.2009 20:39

Laugardagur, 10. 01. 09.

Morgunblaðinu er síður en svo alls varnað. Kolbrún Bergþórsdóttir ræðir í dag við Gauta Kristmannsson, þýðingafræðing og dósent við Háskóla Íslands, og fræðir lesendur um sjónarmið hans á Evrópumálum, sem falla auðvitað að skoðun Kolbrúnar og blaðsins um nauðsyn þess, að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Spyrja má, hvaða þýðingu það hafi, að þýðingafræðingur segi: „Málið er að við hefðum átt að gera það fyrir löngu (að fara í Evrópusambandið); að kvótamistökunum frátöldum eru það sennilega stærstu pólitísku mistök síðustu ára að hafa ekki gerst þátttakendur ESB fyrir mörgum árum. “

Leyfði sér einhver vel menntaður maður, án þess að vera þýðingarfræðingur, að tala á þennan hátt um þýðingar og  leggja þungan dóm á þær, myndi Gauti áreiðanlega svara honum á þann veg, að hann hefði ekkert vit á því, hvernig ætti að þýða, þótt hann kynni bæði tungumálin, sem um væri að ræða.

Gauti veit ekki aðeins betur en aðrir um kvóta og ESB. Hann segir um þá, sem stýra landi og fjármálakerfi, að þeir hafi „bara“ verið „svo miklir amatörar“, að þeir hafi ekki getað gert betur og eigi það bæði við pólitíkusa og bankamenn. Loks lýsir Gauti vanþóknun á þeim „sem vilja ekki horfast í augu við staðreyndir heimsins og vilja bara taka upp annan gjaldmiðil af því að það er gjaldeyriskreppa.“

Hið merkilegasta við viðtalið er, að Kolbrún skuli ekki hafa spurt Gauta að því, hvers vegna hann bjóði sig ekki fram til að leysa mál þjóðarinnar, það hlyti alla vega að hafa mikla þýðingu.