7.1.2009 20:51

Miðvikudagur, 07. 01. 09.

Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er byggð á ársskýrslum embættis ríkislögreglustjóra um skiptingu fjármuna þess milli sérsveitar og efnahagsbrotadeildar.

1. mars 2004 var kynnt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að efla sérsveit lögreglunnar og hefur hún gengið eftir með auknum fjárveitingum. Allt frá fyrsta degi hefur þetta verið umdeild ákvörðun en engu að síður rétt og nauðsynleg. Öryggi og innviði lögreglunnar ber að styrkja með öllum ráðum. Við þær aðstæður, sem nú eru, tel ég, að lögreglan, einkum á höfuðborgarsvæðinu, hafi staðið sig frábærlega vel.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur birt greinargerð um góða málastöðu hjá efnahagsbrotadeild embættisins, þrátt fyrir það virðist punkturinn í forsíðufrétt Fréttablaðsins eiga að vera sá, að ekki hafi verið nóg að gert til að efla efnahagsbrotadeildina. Nafnlausir bloggarar leggja síðan þannig út af fréttinni, að þetta sýni sko svart á hvítu, að ég vilji hylma yfir með fjárglæframönnum!

Endurteknar, nýlegar fréttir Fréttablaðsins um nauðsyn þess að efla efnahagsbrotarannsóknir lögreglu ber kannski að skilja sem yfirbót af hálfu blaðsins? Það sjái nú að sér eftir þá áherslu þess undanfarin ár, að með því að veita fé í þennan málaflokk sé bara verið að ýta undir ofsóknir á hendur eigendum blaðsins.

Hitt er síðan sérstakt umhugsunarefni um fréttamat á þessum umbrotatímum, að forsíða Fréttablaðsins skuli lögð undir efni úr ársskýrslum ríkislögreglustjóra og álit viðmælenda blaðsins á því, sem þar stendur. Líklega er þó tilviljun, að á sama tíma er um það rætt, að útgáfudögum blaðsins eigi að fækka, einnig ritstjórum þess og blaðsíðufjölda.