5.1.2009 20:41

Mánudagur, 05. 01. 09.

Fjölmenni var á fundi í Valhöll í dag, þar sem þeir Bjarni Benediktsson, alþingismaður, og Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, ræddu hvaða umboð forysta Sjálfstæðisflokksins ætti að fá í Evrópumálum.

Þeir nálguðust málið frá ólíku sjónarhorni en hvorugur mælti með aðild. Bjarni lagði áherslu á, að meta yrði Evrópusamstarf í ljósi hagsmuna okkar í peningamálum og stöðu í veröldinni, Styrmir sagði, að forysta Sjálfstæðisflokksins yrði að standa vörð um yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum hennar.

Bjarni velti fyrir sér spurningunni um tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og sagði, að í stað hinnar fyrri gæti komið sameiginleg afstaða allra stjórnmálaflokka um inntak aðildarumsóknar, yrði hún lögð fram. Styrmir hefur rætt um tvær atkvæðagreiðslur en sagði á fundinum að í stað hinnar fyrri kynni að nægja að leggja spurninguna um umsókn/ekki umsókn fyrir alla flokksbundna sjálfstæðismenn, 40 til 45 þúsund. Ég hef hallast að tveimur atkvæðagreiðslum til að fá á hreint, hvort þjóðin veiti heimild til að slá af kröfum um yfirráð yfir auðlindum sjávar.

Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss, tók þrisvar fram í kvöld, þar á meðal í kynningu í fréttatíma, að ég hefði brotið lög, þegar Árni M. Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, skipaði Þorstein Davíðsson héraðsdómara. Bar Þórhallur orð Sigurðar Líndals, lagaprófessors, fyrir sig. Sigurður kvað ekki upp þennan dóm heldur Helgi Seljan, starfsmaður Þórhalls í Kastljósi. Að kenna þá leiðbeiningu, sem umboðsmaður gefur í áliti sínu um það, hvenær ég hefði átt að segja mig frá málinu, við lögbrot, er í besta falli ákaflega langsótt - og hið sama á við um svar Sigurðar við leiðandi spurningu Helga. Að fara þess á leit, að Þórhallur leiðrétti orð sín, kallar aðeins á leiðindi, svo að ég læt þessi orð mín duga.