14.11.2008 19:18

Föstudagur, 14. 11. 08.

Miðstjórn og þingflokkur sjálfstæðismanna komu saman í Valhöll í hádeginu í og sátu fram undir 15.30. Þar voru teknar ákvarðanir um að flýta landsfundi frá hausti 2009 til loka janúar og setja á laggirnar nefnd, Evrópunefnd, undir formennsku Kristjáns Þórs Júlíussonar, alþingismanns, til að fara yfir samskipti Íslands við ríki Evrópu, Evrópusambandið (ESB) og alþjóðasamfélagið í heild í ljósi þeirra breytinga, sem hafa orðið og eru að verða í heiminum.

Eindrægni ríkti á fundinum í stuðningi við tillögu Geirs H. Haarde, flokksformanns og forsætisráðherra, um þessi efni. Ákvörðun þessara stofnana flokksins sýnir, að innan hans er vilji til þess að efna til opinna lýðræðislegra umræðna um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna við gjörbreyttar aðstæður.

Í ræðu, sem ég flutti hinn 17. október sl., kom fram sú skoðun, að nú þyrftu Íslendingar að búa sig undir nýja sjálfstæðisbaráttu til að styrkja stöðu sína. Ég tel, að í dag hafi Sjálfstæðisflokkurinn stigið fyrsta formlega skrefið á þeirri braut. Vilji Sjálfstæðisflokkurinn standa undir nafni á hann að sjálfsögðu að leiða þessa baráttu.

Eins og vék hér að í gær nefndi Dominique Strauss-Kahn, forstjóri alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Ísland til sögunnar í viðtali við kínverskt fjármálarit, þegar hann ræddi um þjóðir, sem hefðu orðið illa úti og leitað hefðu til sjóðsins. Þá hefur komið fram, að innan Evrópusambandsins er mönnum kappsmál að semja við Ísland um túlkun á tilskipun innan sambandsins um ábyrgð vegna gjaldþrots banka - ella kunni allt traust á bönkum að hverfa. 

Ísland er í margra augum víti til varnaðar - dæmi um, hve illa getur farið vegna skorts á skýrum og samhæfðum alþjóðareglum, sem nú er leitast við að móta og rætt verður um á fundi leiðtoga 20 ríkja í Washington um helgina. Ríkisstjórnir og fjármálafurstar annars staðar óttast, að þeir eigi eftir að lenda í sama vanda og ríkisstjórn Íslands og líkur á því hefðu aukist, ef ekki næðust samningar milli Íslands og ESB vegna IceSave.

Sjálfstæðismenn ætla að ræða alla þessa þætti, þótt tengslin við Evrópu beri að sjálfsögðu hæst. Ef menn vilja nálgast málið á þann hátt, að einblína á aðild að Evrópusambandinu, er sjónarhornið of þröngt með hliðsjón af hagsmunum Íslendinga og sögulegum tengslum við Bandaríkin. Viljum við eiga öll alþjóðasamskipti í gegnum Brussel?

Ríkissjónvarpið leitaði álits þriggja manna á ákvörðun sjálfstæðismanna í fréttum sínum í kvöld. Steingrímur J. Sigfússon, sem er á móti ESB-aðild, sagði flokkinn vera á villigötum. Össur Skarphéðinsson, sem vill ESB-aðild, taldi flokkinn hafa batnað í dag. Baldur Þórhallsson, sem vill ESB-aðild, en er fræðimaður, sagði flokkinn mundu lenda í vandræðum, ef skipun nefndarinnar og ný dagsetning landsfundar leiddi ekki til ESB-aðildarstefnu flokksins. Enginn þessara manna var óhlutdrægur