13.11.2008 9:15

Fimmtudagur, 13. 11. 08.

Gretar Mar Jónsson spurði mig um varalið lögreglu á þingi í morgun en var að ræða um héraðslögreglumenn. Í svari mínu sagði ég, að komið hefði í ljós, eftir að reglugerðin var gefin út í október um fjölgun héraðslögreglumanna, að henni þyrfti enn að breyta og fjölga í fleiri umdæmum úr 8 í 16. Það hefði nú verið gert og yrði heildartala héraðslögreglumanna því um 280.

Á ruv.is má lesa í dag:

„Dominique Strauss-Khan, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, gagnrýnir Íslendinga harðlega í viðtali við kínverskt fjármálatímarit og segir augljóst að það geti ekki gengið að bankakerfið hér á landi hafi orðið 12 sinnum stærra en íslenska hagkerfið.

Strauss Khan er mjög harðorður í garð Íslendinga og segir orðrétt: ,,Tökum Ísland sem dæmi, þar sem bankarnir þróuðust þannig að heildareignir í bankakerfinu íslenska voru 12 sinnum hærri en þjóðarframleiðsla landsins. Augljóslega getur það ekki gengið. Og einmitt af þeim orsökum þurfum við fleiri alþjóðlegar reglur til að koma í veg fyrir að svona staða geti komið upp aftur."“

Þegar viðtalið er lesið sést, að ekki er unnt að taka undir feitletruðu orðin í fréttinni á ruv.is. Eitt er að gagnrýna harðlega og annað að nefna dæmi um, hvernig getur farið, ef bankakerfi verður stærra en efnahagskerfi þjóðríkis þolir, eins og hér gerðist. Ísland er nefnt sem víti til varnaðar og þess vegna þurfi nýjar alþjóðareglur. Sjálfsgagnrýni er góð og gild en hún má ekki ganga út í öfgar.

Þessi túlkun á viðtalinu við forstjóra alþjóðagjaldeyrissjóðsins endurspeglar þá sterku liti, sem fjölmiðlar nota til að lýsa stöðu mála hér á landi. Stundum dettur manni í hug, að ástæða sé til að draga andann djúpt og hugsa sig um, áður en ýmislegt er sagt um Ísland innan lands og utan.

Mér var send mynd, sem átti að vera úr Politiken.dk þar sem sett hafði verið inn fyrirsögn á þýsku yfir ljósmynd af Ólafi Ragnari Grímssyni í tilefni af ræðu hans hjá danska sendiherranum í Reykjavík en þar var ræðu Ólafs Ragnars við Sportpalast-ræðu Göbbels. Trúði ég þessu í fyrstu en undraðist síðan, að hið danska blað gerði sig marklaust á þennan veg, og tók til við að leita að tilvísun á vefsíðu þess en fann ekki.

Það er ekki aðeins, að orð erlendra manna eru túlkuð um of heldur er einnig leitast við að færa orð innlendra manna í of dramatískan búning og dreifa þeim þannig.

Í Bandaríkjunum fer nú fram leit að manni, sem dreifði ósannindum á vefsíðum um Söru Palin, en finnst ekki, þegar að er gáð - hann sagði til dæmis ranglega, að hún vissi ekki, hvað Afríka væri! Bárust þau tíðindi um heim allan.

Málefni Íslands voru til umræðu í fyrirspurnatíma á sænska þinginu í dag og á vefsíðu Carls Bildts utanríkisráðherra má lesa:

„Frågestund i riksdagen - där det bl a förväntades att jag skulle ha bedömningar om oljepriset, men där jag också hade möjlighet att förklara det engagemang vi har för att kunna bidraga med en lösning på Islands allt allvarligare problem.

Jag hoppades att Island mycket snart skall kunna fullfölja sin förhandling med IMF, för därmed öppnas dörren för det omfattande nordiska stödpaket för Island som nu förhandlats fram under svensk ledning.

Men ju längre det dröjer desto mer besvärlig riskerar landets situation att bli.

Islands sak är vår.“

Þarna segir Bildt, að hann voni, að Íslendingum takist sem fyrst að ljúka samningum sínum við IMF og opna með því dyrnar að alhliða norrænum stuðningi, sem nú sé samið um undir forystu Svía. Því lengur sem þetta dragist þeim mun verra verði ástandið fyrir landið. Málstaður Íslands er okkar - segir hann í lokin og stangast það nokkuð á við þá skoðun, að Íslendingar njóti einskis skilnings meðal Svía.

Íslenskir fjölmiðlar hafa verið að draga saman seglin undanfarin misseri og gerst æ innhverfari, hitt er verra, ef þeir gefa ekki lengur rétta mynd af því, sem ræður mestu um afstöðu ríkisstjórna einstakra þjóða til íslenskra málefna og draga upp þá mynd, að verið sé að veita Íslendingum ákúrur, þegar bankahrunið hér er tekið sem dæmi um, hvernig getur farið fyrir fleirum, ef bankakerfi vex meira en efnahagskerfið þolir - við skulum vona, að það hafi ekki gerst á heimsvísu!

Hér sést, hvernig bild.de lýsir því, að Ólafur Ragnar Grímsson sé farinn á taugum.