8.11.2008 20:34

Laugardagur, 08. 11. 08.

Halla Gunnarsdóttir (Sigurðssonar) er þingfréttaritari Morgunblaðsins og ritar þar þingbréf á laugardögum um störf alþingis í vikunni, sem er að líða. Í dag hófst bréf hennar á frásögn af mótmælum á Austurvelli. Þá segir: „Fyrir tæpum tveimur vikum var fullt út úr dyrum á brogarafundi í Iðnó. Færri fengu tækifæri til að tjá sig en vildu og mörgum var heitt í hamsi. Í dag munu eflaust margir mæta á borgarafund kl. 13 og færa sig að honum loknum á Austurvöll til að mótmæla.“

Halla Gunnarsdóttir var auglýstur ræðumaður á fundinum í Iðnó og birtist galvösk í sjónvarpsfréttum frá honum með stóryrði* á vörunum. Gunnar Sigurðsson stendur fyrir þessum fundum.

Mótmælendur á Austurvelli töldu það málstað sínum til framdráttar að draga orrustufána, Bónusfánann, að húni á alþingishúsinu og síðan kasta í það eggjum og tómötum. Sjónvarpsmenn spurðu mótmælendur á Austurvelli á þann veg, að þeim þótti augljóslega skiljanlegt, að þessi atlaga væri gerð að þinghúsinu.

Í dagbókarfærslu í gær velti ég fyrir mér, hvort unnt væri að treysta á óhlutdrægni fjölmiðlafólks í þessari orrahríð allri. Ég hef fengið ábendingar um, að fleiri velti þessu fyrir sér.

Annars bar það til fréttnæmra tíðinda á fundinum í Iðnó, að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, taldi það meira en vel koma til greina að hækka skatta, auk þess sem hann varði verðtryggingu lána af miklum þunga.

*es. Halla Gunnarsdóttir sendi mér ræðu sína á fundinum og sé ég, að of sterkt er að orði kveðið hjá mér að nota orðið stóryrði um hana, þótt hún hafi birst mér þannig í hita fundarins, sem sýndur var í sjónvarpinu - þetta er ljóðrænt ávarp til Björgólfs Guðmundssonar.