1.11.2008 20:14

Laugardagur, 01.11.08.

Flugvélin frá Boston lenti klukkan um 05.50 í morgun vel á undan áætlun.

Í dag skrifaði ég pistil á vefsíðuna og reyndi að glöggva mig á umræðunum um fjármálakrísuna. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom síðdegis kemur fram, að fylgi Sjálfstæðisflokksins er 22,3% samkvæmt Gallup-könnun, Samfylkingin fær 36,9%, vinstri/græn 26,9%, 7,8% framsókn, tæp 80% segjast hafa misst trú á krónunni.

Í Reykjavíkurbréfi blaðsins undrar höfundurinn sig á því, að ég skuli hafa vitnað í Ívar Jónsson, sem benti á að álagið á krónuna hefði minnkað með brotthvarfi útrásarinnar, af því að Ívar er marxisti að mati höfundarins.

Eitt er að efast um dómgreind Ívars, af því að hann er marxisti, annað að halda því fram, að því er virðist í alvöru, að við Ívar höfum rangt fyrir okkur, þar sem Íslendingar kunni einhvern tíma að nýju að ráðast í útrás! Hér má segja. Den tid, den sorg og spyrja: Hvers vegna ekki að horfast í augu við núverandi vanda og gera áætlun um aðgerðir gegn honum? Hvers vegna vill höfundur Reykjavíkurbréfs forðast það eins og heitann eld?

95 ára saga Morgunblaðsins einkennist af raunsæi og rökfimi stjórnenda þess, þegar mest hefur reynt á þrek og þol þjóðarinnar. Að láta óskhyggju og útúrsnúninga ráða ferð er sögulegt stílbrot við ritstjórn blaðsins.